„Snýst um að binda enda á dýraníð“

Rísastór sjávarspendýr eiga ekki heima í sundlaugum til þess eins …
Rísastór sjávarspendýr eiga ekki heima í sundlaugum til þess eins að vera til sýnis. Ljósmynd/Take Part

Ekkert frumvarp hefur fengið jafn ítarlega meðferð í kanadíska þinginu síðustu áratugina og það sem nú er loks komið til þriðju umræðu í fulltrúadeild þess. Ekki einu sinni tvö umdeildustu frumvörp síðari ára sem fjölluðu um hryðjuverk annars vegar og dánaraðstoð hins vegar. Það er sum sé hiti í Kanadamönnum þegar kemur að því að svara spurningunni: Á að leggja bann við því að fanga hvali og höfrunga til að hafa þá til sýnis í búrum?

Nú þykir loks ljóst, eftir þriggja ára þinglega meðferð, að meirihluti er fyrir þessu banni. Verði það að lögum, sem gæti gerst á næstunni, geta þessar miklu skepnur synt rólegar um hafið við Kanada. Að minnsta kosti mun ógnin um að þær verði gerðar að sýningardýrum heyra sögunni til.

„Við sem þjóð getum ekki lengur stundað það að halda þessum dýrum föngnum,“ sagði Elizabeth May, formaður Græningjaflokksins, við aðra umræðu um málið í fulltrúadeildinni. „Það er tímabært að við grípum til þeirra aðgerða sem settar eru fram í þessu lagafrumvarpi. Þetta snýst ekki um að loka vinsælli dægradvöl ferðamanna. Þetta snýst um að binda enda á dýraníð. Við getum ekki haldið áfram að láta eins og við vitum ekki að þetta sé níð, það hafa vísindamenn staðfest víðs vegar um heim.“

Frumvarpið hefur í fjölmiðlum verið kallað „Free Willy“-frumvarpið, eftir frægri kvikmynd um háhyrning í sædýrasafni sem fær frelsi. Sá sem „lék“ Willy í kvikmyndinni var háhyrningurinn Keikó. Hann var veiddur við Íslandsstrendur á níunda áratug síðustu aldar og fluttur í sædýrasafn í Bandaríkjunum. Eins og kunnugt er var hann svo fluttur aftur til Íslands mörgum árum síðar, nánar tiltekið til Vestmannaeyja. Honum var að lokum sleppt frjálsum en hann drapst úr lungnasjúkdómi við Noregsstrendur árið 2003.

Hvalir í haldi sýna oft hegðun sem misskilin er sem …
Hvalir í haldi sýna oft hegðun sem misskilin er sem vinahót og til marks um vellíðan þeirra. Þessi mjaldur er að bregðast við endalausu áreiti áhorfenda í vatnagarði í Kanada. Ljósmynd/Take Part

Frumvarpið var fyrst lagt fram árið 2015 af öldungadeildarþingmanni frjálslyndra, Wilfred Moore, með þeim rökum að dýrahald sem þetta væri óréttlætanlegt með öllu. Nú er hann hættur þingmennsku en segist glaður að málið sé loks komið á góðan rekspöl. Það velktist lengi um hjá þingnefndum áður en það var nú í lok október samþykkt í öldungadeildinni og fór þaðan til fulltrúadeildarinnar sem á enn eftir að leggja blessun sína yfir það.

Þingmenn Íhaldsflokksins hafa á öllum stigum málsins reynt að tefja það. Þeir hafa þó gefið eftir síðustu vikurnar. „Þetta hefur tekið langan tíma,“ segir Moore. „Þetta frumvarp var líklega lengur í nefnd en nokkuð annað frumvarp síðustu 20-25 ár.“

Sautján fundir og fjörutíu gestir

Sjávarútvegsnefnd þingsins hélt 17 fundi um málið og fyrir nefndina komu yfir fjörutíu manns. Til samanburðar voru haldnir fimm fundir um frumvarp um dánaraðstoð (líknardráp) í þingnefnd áður en það var lagt fram á þinginu og svo tveir eftir það. Sömu sögu er að segja um frumvarp um umdeild hryðjuverkalög.

Samkvæmt frumvarpinu verður það gert refsivert að halda hvölum og háhyrningum föngnum í Kanada. Nokkrar undantekningar eru á, s.s. ekki er þess krafist að þau dýr sem þegar eru í haldi fái frelsi og þá verður löglegt að fanga þau í vísindaskyni sem og ef þau eru slösuð eða veik og þarfnast aðstoðar manna. Þá verður bannað að flytja kynfrumur úr dýrunum út, og einnig bannað að rækta þau.

Frumbyggjarnir samþykkir

Í frumvarpinu er tekið tillit til sérstöðu frumbyggja Kanada. Er það gert til að tryggja að réttindi sem þeir hafa samkvæmt lögum spillist ekki.

Þingmenn Íhaldsflokksins hafa þó haldið því fram að frumvarpið takmarki lögbundna heimild frumbyggja til nýtingar á hvalastofnunum við Kanada. Lögin myndu skerða afkomu þeirra.

Þingmenn frjálslyndra segja það hafa verið ljóst frá upphafi að samráð yrði haft við frumbyggjana og að það hafi verið gert. Moore, faðir frumvarpsins, segir þetta enn eina tilraun íhaldsmanna til að tefja málið. Í sama streng hafa þingmenn úr hópi frumbyggja tekið og hafa þeir flestir reynst samþykkir frumvarpinu.

Í dýragörðum eru háhyrningar og aðrir hvalir oft látnir skemmta …
Í dýragörðum eru háhyrningar og aðrir hvalir oft látnir skemmta áhorfendum með listum. Um dýraníð er að ræða segja þingmenn sem styðja frumvarpið. Ljósmynd/Take Part

Allt útlit er nú fyrir að frumvarpið verði að lögum sem þingmenn úr öllum flokkum styðja. „Fólk er mun meðvitaðra í dag og hefur meiri þekkingu um þessi dýr og þær aðstæður sem þau þurfa að búa við til að vera hamingjusöm og heilbrigð,“ sagði stjórnarþingmaðurinn Sean Casey í ræðu sinni við fyrstu umræðu frumvarpsins á dögunum. „Það er enginn vafi á að þessi ríkisstjórn og Kanadamenn strandanna á milli styðja við bannið gegn því að sjávarspendýr séu fönguð til þess eins að hafa til sýnis.“

Líða fyrir að vera í haldi

Vísindamenn, sem fjölmargir komu fyrir þingnefndirnar, ítrekuðu að ljóst væri að stór sjávarspendýr liðu fyrir það að vera í haldi. Heilsa þeirra brestur, líf þeirra styttist og kálfar þeirra drepast frekar en úti í náttúrunni. Þá verða þau fyrir miklu áfalli og haga sér allt öðruvísi en þau myndu gera í hafinu.

Bent var t.d. á að háhyrningar, sem eru vinsæl sýningardýr um allan heim, séu greindar skepnur og í náttúrunni haldi þeir til í hópum. Milli þeirra myndast djúp tengsl og þeir hafa meira að segja sitt tungumál. Þeir synda að meðaltali um 160 kílómetra á dag og kafa ítrekað djúpt eftir æti.

Er mæður eru aðskildar frá kálfum sínum í haldi þjást þær. Þingmenn hafa í umræðunum bent á mál háhyrningskýrinnar J-35. Hún synti undan ströndum Kanada með dauðan kálf sinn í sautján sólarhringa og vakti gríðarlega athygli um heim allan. May, formaður Græningja, sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins í fulltrúadeildinni, segir að þótt vísindamenn hafi oftsinnis varað við því að mannlegar tilfinningar séu yfirfærðar á dýr, hafi þeir viðurkennt að háhyrningskýrin hafi syrgt kálfinn sem hún missti. „Og hugsið um þessi tengsl, þessi tilfinningatengsl, og ákveðið svo að hægt sé að halda hvölum og höfrungum í sundlaug og að allt verði í lagi.“

„Magnaðar skepnur“

Tveir sjávardýragarðar í Kanada eru með sjávarspendýr til sýnis: Marineland og Vancouver Aquarium. Báðir hafa þeir lagst gegn frumvarpinu. May hefur hins vegar ítrekað að hvalir og háhyrningar eigi ekki heima í vatnstönkum. „Sama hversu mikill kærleikur virðist vera milli þjálfara og hvals, þá er þessum dýrum haldið við aðstæður sem skaða þær, drepur þær, og neitar þeim um að sýna þær eru: Magnaðar skepnur, konungar hafsins.“

Áður en að Moore tók málið upp á sína arma árið 2015 höfðu dýraverndunarsamtök bent á slæmar aðstæður dýranna í vatnagörðum lengi. Það var svo heimildarmyndin Blackfish, sem frumsýnd var árið 2013 sem hreyfði við mörgum, m.a. Moore. Í myndinni var sýnt hvernig aðbúnaður dýranna hefur áhrif á líðan þeirra, m.a. í frægum vatnagörðum á borð við Sea World. Söguhetja myndarinnar er háhyrningurinn Tilikum sem veiddur var við Íslandsstrendur og í framhaldinu færður á milli búra í dýragörðum víða. Myndin snerti Moore djúpt og hann ákvað að gæta þess að Kanada tæki ekki þátt í þessum verknaði á nokkurn hátt.

Þingmenn hafa bent á það og vitna í vísindamenn máli sínu til stuðnings að í náttúrunni eyði háhyrningar um 80-90% af tíma sínum í kafi og því stuttum tíma ofan vatnsyfirborðs. Í vatnagörðum er því öfugt farið. Þeir eru stöðugt með höfuðið upp úr vatninu í leit að athygli þjálfara eða áhorfenda sem þeir þurfa að stóla algjörlega á. Í hafinu eru þeir umkringdir alls konar náttúrulegum hljóðum sem örva þá. Í dýragörðum heyra þeir ekkert annað en nið í vatnsdælum, sprengjur flugelda og klapp áhorfenda, daginn út og inn.

Hefur verið bent á að í dýragörðunum tveimur í Kanada, sem enn eru með stór sjávarspendýr til sýnis, séu ung dýr og því muni garðarnir hafa mörg ár og jafnvel áratugi til að aðlagast hinni nýju löggjöf.

Tilveruréttur hvala

Robert Sopuck er í hópi þingmanna Íhaldsflokksins sem gagnrýnt hefur frumvarpið og kallað það tilfinningaleg viðbrögð við vanda sem sé „einfaldlega ekki til“. Greip hann m.a. til þess rökstuðnings að þó að það væri vissulega skiljanlega mikil upplifun að sjá hvali í sínu náttúrulega umhverfi væri það ekki á allra Kanadamanna færi. „Án þessara garða myndu margir aldrei sjá þessar skepnur.“ Sagði hann garðana því mikilvæga til að uppfræða fólk um sjávarspendýr. Á þau rök hefur verið blásið, m.a. af sérfræðingum sem komu fyrir þingnefndirnar, og bent á að dýrin eigi sinn tilverurétt á sínum forsendum, óháð því hvort það gagnist mannfólki með einhverjum hætti eður ei.

Er tekist var á um málið í öldungadeildinni sagði íhaldsmaðurinn Don Plett m.a. frá jákvæðri reynslu sinni í heimsókn til vatnagarðanna. Sagði hann gaman að sjá hvað hvalirnir væru glaðir á svipinn þegar þeir „koma út og fá að éta“.

Sagðist hann efast um að margir þingmenn hefðu kynnt sér aðstæðurnar í eigin persónu.

Háhyrningur með kálfi sínum að leik í sjónum.
Háhyrningur með kálfi sínum að leik í sjónum. Af Wikipedia

Mary Jane McCallum, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, steig í pontu og lýsti allt annarri reynslu. „Kvenkyns mjaldur liggur hreyfingarlaus undir hræi kálfs, háhyrningur liggur hreyfingarlaus við hlið hennar og flýtur upp til yfirborðsins deyfður eftir að hafa óvart fengið of stóran skammt af valíum,“ sagði hún, tók svo fleiri dæmi og sýndi ljósmyndir máli sínu til stuðnings.

Líkur eru nú taldar á því að frumvarpið verði samþykkt og að síðasti hvalurinn við Kanadastrendur, sem settur er í sýningarbúr, hafi verið fangaður.

Dýravinir vonast til þess að lengra verði gengið og að sumir hvalirnir og höfrungarnir, sem nú þegar eru í görðunum í Kanada, verði með tíð og tíma fluttir í betri aðstæður í friðlöndum við British Columbia eða Nova Scotia. Vancouver aqarium hefur reyndar þegar lýst því yfir að hætt verði að sýna stór sjávarspendýr og að reynt verði að veita þeim frelsi í griðlöndum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert