Sjö ára stúlka lést í haldi

Landamæraverðir að störfum á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.
Landamæraverðir að störfum á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. AFP

Sjö ára gömul stúlka frá Gvatemala sem fór með ólöglegum hætti yfir landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna lést nokkrum klukkustundum eftir að hún var færð í fangabúðir bandarískra yfirvalda. Dánarorsökin er ofþornun og áfall. Washington Post greinir frá þessu en stúlkan var með föður sínum á flóttanum til Bandaríkjanna. Þau voru í hópi flóttamanna sem kom yfir landamærin í síðustu viku. Hópurinn gaf sig fram við yfirvöld eftir að hann kom til Bandaríkjanna og var samstundis færður í varðhald.

Börn á flótta frá ríkjum Mið-Ameríku.
Börn á flótta frá ríkjum Mið-Ameríku. AFP

AP-fréttastofan hefur eftir landamæravörðum að stúlkan hefði hvorki fengið mat né drykk dögum saman þegar hún kom yfir landamærin. Þúsundir flóttamanna hafa undanfarið komið frá ríkjum Mið-Ameríku að landamærum Bandaríkjanna en flestir eru á flótta undan ofsóknum, fátækt og ofbeldi í heimalöndum sínum. Flestir koma frá Gvatemala, Hondúras og El Salvador. 

AFP

Margir láta það ekki stöðva sig að bandarísk yfirvöld hafi gefið út yfirlýsingar um að hver sá sem komi með ólöglegum hætti inn í landið eigi á hættu handtöku, saksókn og að vera vísað úr landi. Bandarísk yfirvöld hafa ekki gefið út neina yfirlýsingu varðandi dauða stúlkunnar.

Washington Post greindi frá því í gær að stúlkan hafi fengið flog nokkrum klukkustundum eftir að hún var sett ásamt föður sínum í fangabúðir. Hún var flutt þaðan með þyrlu ásamt föður sínum á barnaspítalann í El Paso en innan við sólarhring síðar var hún látin úr hjartaslagi. 

Mikil spenna hefur verið á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó að undanförnu en talið er að um 7.500 flóttamenn hafi komið að landamærunum undanfarnar vikur. Í síðasta mánuði beittu landamæraverðir táragasi á hóp flóttafólks, þar á meðal börn, sem var að reyna að komast yfir landamærin. Bandarísk yfirvöld segja að það hafi verið gert í varnarskyni eftir að grjóti var kastað í landamæraverði. 

AFP

Flestir flóttamannanna koma í stórum hópum allt frá Mið-Ameríku. Um fjögur þúsund km ferðalag er að ræða og eru margar fjölskyldur þar á meðal.

BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert