Leggja til flugbætur í Kanada

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Kanadísk stjórnvöld hafa lagt fram tillögur um að flugfélögum sem fljúga til og frá Kanada og innan landsins verði gert að greiða háar bætur til farþega sem verða til að mynda fyrir seinkunum, því að flugferðir eru felldar niður eða að missa af flugi vegna yfirbókunar.

Fram kemur í frétt AFP að tillögurnar komi í kjölfar vaxandi fjölda kvartana frá flugfarþegum. Haft er eftir Marc Garneau, samgönguráðherra Kanada, að allir þekki einhvern sem hafi upplifað slæma reynslu af flugferðum eða heyrt fréttir af slíkum í fjölmiðlum.

Ráðherrann sagði stefnu stjórnvalda að sjá til þess að flugfélög kæmu fram við farþega sína af þeirri virðingu sem þeir ættu skilið og standi við skuldbindingar sínar fyrir utan þau tilfelli þar sem eitthvað gerðist sem væri ekki á þeirra valdi að koma í veg fyrir.

Gert er ráð fyrir því í tillögunum að bætur vegna seinkana eða aflýsinga gætu numið allt að 1.000 kanadískum dollurum (um 92 þúsund krónur) og 2.400 dollurum (um 220 þúsund krónur) ef farþegum væri neitað að fara um borð á þeim forsendum að flug hafi verið yfirbókað. Garneau segir fyrirmyndina bandarískar og evrópskar reglur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert