Ekki sek um manndrápstilraun

Ung kona sem hefur setið á bak við lás og slá í meira en átján mánuði í El Salvador fyrir tilraun til manndráps hefur verið látin laus úr haldi. Konan var sökuð um að hafa brotið gegn lögum sem banna þungunarrof.

Imelda Cortez, sem er tvítug, varð þunguð eftir stjúpföður sinn en hann nauðgaði henni ítrekað í sjö ár. Lækna grunaði að hún hefði reynt að binda endi á þungunina eftir að hún fæddi stúlku í apríl í fyrra en barnið var fyrirburi.

Barnið lifði en Cortez var handtekin grunuð um að hafa reynt að koma barninu fyrir. Saksóknarar byggðu kröfu sína á þögn hennar um þungunina og að hún hafi látið hjá líða að fá læknisaðstoð eftir að hún fæddi barnið. Það jafngildi tilraun til manndráps en við því liggur tuttugu ára fangelsisrefsing í El Salavador. 

Í gær dæmdu dómarar henni í vil, að Cortez, sem vissi ekki að hún væri þunguð, hefði ekki reynt að drepa barn sitt.

Lögmenn hennar segja að til þess að komast hjá harðari refsingu hafi hún játað á sig vanrækslu gagnvart nýburanum en við því er eins árs fangelsisdómur þyngsta refsing. En dómarar töldu að hún væri saklaus af öllum ákæruliðum.

Dómurinn þykir marka tímamót í El Salvador og var fagnað ákaft af jafnréttissinnum þar í landi. 

Cortez leitaði til læknis í apríl í fyrra vegna blæðingar. Við skoðun kom fylgjan í ljós. Cortez sagði að henni hafi fundist eins og eitthvað kæmi út úr henni þegar hún var á klósettinu og fór lögregla á heimili hennar til þess að rannsaka rotþróna. Þar fann hún grátandi barn sem tókst að bjarga. 

Imelda Cortez.
Imelda Cortez. AFP
Imelda Cortez með stuðningsmönnum eftir að hafa verið látin laus …
Imelda Cortez með stuðningsmönnum eftir að hafa verið látin laus í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert