Bannað að banna karla

Hátíðin var haldin í Gautaborg í september og þótti heppnast …
Hátíðin var haldin í Gautaborg í september og þótti heppnast vel. Ljósmynd/Facebook-síða Statement

Að banna karlmönnum aðgang að tónlistarhátíð felur í sér ólöglega mismunun. Þetta er niðurstaða sænsku jafnréttisstofunnar sem birtist á mánudag en þar var tekin fyrir tónlistahátíðin Statement, sem var haldin í september.

Karlmönnum var óheimilaður aðgangur að Statement og var sú stefna rækilega kynnt í aðdraganda hátíðarinnar. Undantekning var þó gerð fyrir trans-karla og aðra kynsegin (e. non-binary) einstaklinga, en það eru þeir sem skilgreina sig hvorki sem karl né konu. Að sögn Aftonbladet var þó ekkert eftirlit haft með því að miðahafar væru í reynd ekki karlkyns og hefur jafnréttisstofan ekkert haldbært dæmi um karlmann sem hafi verið mismunað.

Með hliðsjón af dómum Evrópudómstólsins sé þó enginn vafi um að opinberar yfirlýsingar, svo sem auglýsingar, sem sé ætlað að fæla tiltekinn þjóðfélagshóp frá þátttöku, teljist til mismununar, að því er fram kemur í úrskurði jafnréttisstofunnar.

„Við erum nauðsynleg“

Forsprakki hátíðarinnar var grínistinn Emma Knyckare en hún segir kveikjuna að hátíðinni hafa verið fjöldi kynferðisbrotamála á útihátíðum árið áður. Ekkert kynferðisbrot var tilkynnt á Statement.

„Það er leitt að hátíð 5.000 kvenna, transmanneskja og kynsegin einstaklinga skuli verða til þess að nokkrir sis-karlmenn brjálist,“ segir í færslu sem aðstandendur hátíðarinnar birtu á Facebook, en sis-karlmenn eru karlmenn sem fæddir eru í líkama karlmanna. 

„Velgengni Statement-hátíðarinnar sýnir að við erum nauðsynleg. Annars höfum við ekki meira um málið að segja, við erum upptekin við að breyta heiminum,“ segir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert