Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gærkvöldi fjárlagafrumvarp með viðbótarfjármagni fyrir landamæramúrinn sem Donald Trump Bandaríkjaforseti vill reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Öldungadeild þingsins samþykkti í fyrrakvöld fjárlagafrumvarp þar sem ekki er gert ráð fyrir fjármagni fyrir landamæramúrinn og neitaði Trump í gær að skrifa undir frumvarpið af þeim sökum.
„Forsetinn tjáði okkur að hann mun ekki skrifa undir frumvarpið þar sem hann hefur verulegar áhyggjur af öryggi á landamærum Bandaríkjanna,“ sagði Paul Ryan, forseti fulltrúadeildarinnar, við það tilefni.
Frumvarpið er ætlað í rekstur bandaríska stjórnkerfisins til 8. febrúar, en fáist það ekki samþykkt af báðum deildum þingsins, eða neiti forsetinn að undirrita það, verður ríkisstofnunum lokað þar til niðurstaða fæst.
Fjárlagafrumvarpið, með 5 milljarða dollara viðbótarfjárveitingu fulltrúadeildarinnar, mun nú fara aftur til öldungadeildarinnar þar sem BBC segir næsta víst að því verði hafnað. Er því búist við að hluta ríkisstofnananna verði lokað á miðnætti í kvöld þar til niðurstaða næst.