Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað því að ríkisstofnunum Bandaríkjanna verði lokað að hluta til í „mjög langan tíma“ samþykki demókratar í öldungadeild Bandaríkjaþings ekki að veita fjármagni til byggingar veggs á landamærum landsins að Mexíkó.
Trump skrifaði nokkrar færslur á Twitter í dag þar sem hann gerir kröfu um að samþykkt verði að leggja fimm milljarða dollara í framkvæmdina. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur þegar samþykkt fjármögnunina en búist er við að öldungadeildin hafni henni.
Verði ekki samið um málið byrja bandarískar ríkisstofnanir að loka á miðnætti í kvöld. Trump segir það staðreynd að ekkert annað en veggur virki, líkt og verið hafi í þúsundir ára. „Þetta er eins og hjólið, það er ekkert betra,“ skrifaði forsetinn á Twitter-síðu sína.
„Kjósi demókratar að segja nei þá verða lokanir sem munu vara í mjög langan tíma. Fólk vill ekki opin landamæri og glæpi,“ sagði Trump ennfremur. Forsetinn vill að gripið verði til þess ráðs að knýja fram atkvæðagreiðslu þar sem aðeins þyrfti einfaldan meirihluta.
Leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, Mitch McConnell, hefur hins vegar ekki viljað grípa til slíks örþrifaráðs. Þá hefur verið bent á það að yrði það gert gæti það hleypt illu blóði í öldungadeildarþingmenn en repúblikanar hafa 51 af 100 þingmönnum þar.
Komi ekki til samkomulags mun um fjórðungur opinberra bandarískra stofnana loka á miðnætti. Þar á meðal heimavarnarráðuneytið og stofnanir á sviði samgöngu,- landbúnaðar-, utanríkis- og dómsmála munu einnig þurfa að hætta starfsemi sinni.
Heilbrigðisstofnanir muni hins vegar starfa áfram, eftirlaunastofnanir, bandaríski herinn, alríkisdómstólar og flugumferðarstjórn. Ennfremur mun póstþjónustan, sem hefur í miklu að snúast að vanda í aðdraganda jólanna, halda sínu striki þar sem hún er sjálfstæð stofnun.
Þá halda alríkisstarfsmenn sem teljast sinna nauðsynlegum störfum áfram vinnu sinni. Komi til þess að ríkisstofanir loka er talið ólíklegt að deilan verði leyst fyrr en eftir áramótin þegar demókratar fá meirihluta í fulltrúadeildinni í kjölfar þingkosninganna sem fram fóru í haust.
Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu í dag.