Spá allt að 49° hita í Ástralíu

Fólk slappar af á Bondi-ströndinni í Sydney á jóladag. Mikil …
Fólk slappar af á Bondi-ströndinni í Sydney á jóladag. Mikil hitabylgja er nú í Ástralíu. AFP

Mikil hitabylgja gengur nú yfir Ástralíu og er talið að hitinn í fimm fylkjum í vesturhluta landsins kunni að ná allt að 49°, sem er tíu gráðum yfir meðalhita á þessum árstíma og tveimur gráðum undir hitametinu.

Hafa hitamet þegar fallið í fjórum fylkjum landsins að því er fram kemur á fréttavefnum news.com.au

Yfirvöld í Ástralíu hafa líka varað við hættu á gróðureldum í kjölfar hitanna og hefur íbúum víða verið bannað að vera með opinn eld. Þá er einnig varað við óheilnæmu lofti vegna óson-myndunar og margvíslegum neikvæðum heilsufarsáhrifum af völdum hitanna. Sagði Jeremy McAnulty, yfirmaður heilsugæslunnar í New South Wales, að ósonið geti valdið ertingu í lungum með hækkandi hita og lungna- og astmasjúklingar eigi því að fara varlega.

Ekki er útlit fyrir að hitabylgjunni ljúki í bráð og segir Guardian að hitabylgjur, misjafnlega heitar þó, muni gera vart við sig í flestum fylkjum Ástralíu að minnsta kosti fram yfir næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert