Trump segir demókrata bera ábyrgð á dauða barnanna

Barn frá Mexíkó sést hér fara fram hjá landamæragirðingu við …
Barn frá Mexíkó sést hér fara fram hjá landamæragirðingu við bandarísku landamærin. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sakaði í dag demókrata um að bera ábyrgð á dauða tveggja barna hælisleitenda sem létust er þau voru í haldi bandarískra yfirvalda. 

„Þegar börn eða aðrir deyja við landamærin þá er það einvörðungu demókrötum að kenna og þeirra ömurlega stefnu í innflytjendamálum sem lætur fólk ganga langa leið í þeirri von að þeir geti komist inn í landið okkar með ólögmætum hætti. Þau geta það ekki. Ef við ættum vegg, þá myndu þau ekki einu sinni reyna þetta,“ skrifaði forsetinn í færslu sem hann birti á Twitter. 

Ummælin féllu eftir að tvö börn frá Gvatemala, sem voru sjö og átta ára gömul, létust þegar þau voru í haldi landamæravarða, en börnin komu til Bandaríkjanna ásamt ættingjum sínum með ólögmætum hætti. Um tvö aðskilin atvik er að ræða. 

Í annarri færslu sem Trump birti fyrr í dag, sagði hann að demókratar ættu næsta skref til að leysa deiluna um múrinn við landamæri Bandaríkjanna að Mexíkó. Deilan leiddi til þess að bandarískum ríkisstofnunum var lokað þar sem Trump neitaði að undirrita fjárlög sem gerðu ekki ráð fyrir fimm milljarða dollara fjárframlagi til byggingar múrsins. Stofnunum hefur nú verið lokað í átta daga. 

Í færslunni sagðist Trump vera staddur í Hvíta húsinu í Washington þar sem hann biði eftir útspili frá demókrötum. 

Trump segir ábyrgðina liggja hjá demókrötum. Demókratar vísa því til …
Trump segir ábyrgðina liggja hjá demókrötum. Demókratar vísa því til föðurhúsanna. AFP

Dwight Evans, þingmaður Demókrataflokksins, sagði í færslu á Twitter, að Trump væri „að leggjast enn lægra með þessum fáránleg tístum. Það er ríkisstjórnin hans sem ber ábyrgð á þeim sársauka og þeirri þjáningu sem á sér stað við landamærin. Sama hvað hann segir þá mun ekkert hagga þeirri staðreynd.“

Aðrir hafa sagt að Twitter-færslur Trumps séu óhugnanlegar og bent á að árum saman hafa sama innflytjendalöggjöf verið í gildi í Bandaríkjunum án þess að börn hafi látist í vörslu yfirvalda. 

Felipe Gomez féll niður örmagna með mikinn hita þegar hann var að ferðast með föður sínum frá Gvatemala. Þeir voru teknir við landamærin og Gomez, sem var átta ára gamall, lést þegar hann var í haldi yfirvalda. 

Hann lést sama dag og Jakelin Caal, sjö ára gömul stúlka, einnig frá Gvatemala, var borin til grafar í heimalandinu. Hún lést einnig í umsjá bandarískra yfirvalda við svipaðar kringumstæður. 

Undanfarna tvo mánuði hafa bandarískir landamæraverðir handtekið 139.817 einstaklinga suðvestur landamærin, borið saman við 74.946 einstaklinga á sama tímabili í fyrra.

Rúmlega 68.500 voru hluti af fjölskyldu á meðan um 14.000 þeirra voru börn sem voru ein á ferð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert