Mannskætt lestarslys á Stórabeltisbrúnni

Frá slysstað á Stórabeltisbrúnni í morgun.
Frá slysstað á Stórabeltisbrúnni í morgun. Ljósmynd/Twitter

Að minnsta kosti sex eru látnir eftir lestarslys á Stórabeltisbrúnni í Danmörku í morgun. Þetta staðfestir danska járnbrautarfélagið DSB og lögreglan á Fjóni útilokar ekki að fleiri hafi látist. Nýjustu fregnir herma að slysið hafi orðið þegar farþegalestin mætti flutningalest og rakst í einhvern hlut á vagni flutningalestarinnar á neðri hluta brúarinnar.

Lokað hefur verið fyrir umferð um brúna og ekki er ljóst hvenær hún verður opnuð aftur. 

Greint var frá því í morgun að átta manns væru slasaðir eftir að lest þurfti að hemla harkalega á brúnni vegna stórs aðskotahlutar sem fauk á brautarteinana og þaðan á lestina. Stormurinn Alfrida gengur yfir hluta Skandinavíu þessa stundina og er einna hvassast í Danmörku og Svíþjóð.

131 farþegi var um borð í lestinni þegar slysið átti sér stað. Lögreglan hefur komið upp fjöldahjálparmiðstöð í íþróttahúsi í Nyborg í nágrenni við brúna. Þá hvetur hún farþega sem voru í lestinni til að láta ættingja og vini vita af sér.

Blaðamannafundur vegna slyssins er að hefjast rétt í þessu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka