Alls fórust átta í lestarslysinu á Stórabeltisbrú í gær, fimm konur og þrír karlar. Sextán slösuðust. Borin hafa verið kennsl á fjóra hinna látnu. Frá þessu greinir lögreglan á Fjóni.
Slysið varð klukkan 7:35 að staðartíma í gærmorgun á Stórabeltisbrúnni sem tengir Sjáland og Fjón. 131 farþegi var í lestinni og þrír starfsmenn.
Tómur tengivagn flutningalestar sem mætti farþegalest fauk af teinunum og lent framan á farþegalestinni. Mjög hvasst var á svæðinu þegar slysið varð. Að sögn lögreglu voru flestir þeirra sem létust í fremsta vagni farþegalestarinnar.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa í Danmörku og lögreglan rannsaka tildrög slyssins og í nótt var ákveðið að flytja báðar lestarnar af brúnni þar sem enn er vont veður á svæðinu og skilyrði til rannsóknarvinnu ekki góð.
Slysið er mannskæðasta lestarslys í Danmörku í þrjátíu ár, eða síðan 25. apríl 1988, þegar átta fórust og 72 slösuðust þegar lest fór út af sporinu við Sorø.