Stórhuga Danir kynna níu iðnaðareyjur

Eyjarnar níu sunnan Kaupmannahafnar eiga að verða yfir þrjár milljónir …
Eyjarnar níu sunnan Kaupmannahafnar eiga að verða yfir þrjár milljónir fermetra að flatarmáli. Teikning/URBAN POWER

Ríkisstjórn Danmerkur og sveitarfélagið Hvidovre kynntu í dag gríðarlega stórtækar áætlanir um byggingu níu manngerðra eyja við Avedøre-hólma, í útjaðri Kaupmannahafnarborgar. Á eyjunum níu á að búa til pláss fyrir atvinnustarfsemi af ýmsum toga, auk almenningsgarðs, samkvæmt fyrstu teikningum.

Í frétt danska ríkisútvarpsins, DR, kemur fram að hvatinn að verkefninu komi frá borgaryfirvöldum í Hvidovre og haft er eftir borgarstjóranum Helle Adelborg í fréttatilkynningu að eyjarnar muni draga að sér líf, atvinnulíf, mannlíf og fuglalíf, þar sem um afar grænt svæði verði að ræða.

Áætlað er að um 380 fyrirtæki geti verið með starfsemi á nýju eyjunum níu og að þar geti 12.000 manns starfað.

Búist er við því að verkinu verði lokið árið 2040 og að vinna við landfyllingar geti hafist árið 2022, með það að markmiði að fyrstu lóðirnar geti verið klárar til sölu árið 2028. Tekið er fram að fjármögnun sé ekki tryggð og að ekki liggi fyrir hvort verkefnið borgi sig upp eingöngu með jarðasölu á nýju eyjunum eða hvort danska ríkið muni leggja fé í þessa landsköpun.

Ráðgert er að eyjarnar níu verði yfir þrjár milljónir fermetra að flatarmáli og ljóst að gríðarleg magn jarðvegs þarf til að búa þær til utan við Avedøre-hólma. Unnið er að því að stækka neðanjarðarlestarkerfið í Kaupmannahöfn og er tekið fram að hluti efnisins í landfyllinguna muni koma þaðan.

Hér eru sveitarfélagamörk Hvidovre afmörkuð með rauðum lit. Syðst í …
Hér eru sveitarfélagamörk Hvidovre afmörkuð með rauðum lit. Syðst í sveitarfélaginu er Avedøre-hólmi, þar sem eyjarnar eiga að rísa. Kort/Google
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert