14 ára drengur stunginn til bana

Þrír menn réðust á drenginn, sem var á rafmagnshjóli, eftir …
Þrír menn réðust á drenginn, sem var á rafmagnshjóli, eftir að hann lenti í árekstri við bíl mannanna. Ljósmynd/Twitter

14 ára drengur var stunginn til bana í Leyton-hverfinu í norðausturhluta Lundúna á mánudag. Þrír menn réðust að honum, hrintu honum af rafmagnshjóli og stungu hann. Þeir yfirgáfu vettvanginn strax að árásinni lokinni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafði drengurinn lent í árekstri við bíl skömmu áður en árásin átti sér stað. Mennirnir þrír voru í bílnum og réðust þeir á drenginn eftir áreksturinn. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.

Mögulegt er að árásin tengist gengjaátökum en íbúar í hverfinu fullyrða að ofbeldi hafi aukist í hverfinu upp á síðkastið. „Þetta er fáránlegt. Á hverju ári, í hverjum mánuði gerist eitthvað - öll þessi morð. Ég á börn og ég vil ekki að þau alist upp hérna,“ segir íbúi í hverfinu í samtali við BBC.

Drengurinn er sá yngsti sem lætur lífið í átökum á götum Lundúnaborgar í langan tíma og segir Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, að hann sé miður sín vegna dauða drengsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert