21 fórst í eldhafinu

Að minnsta kosti 21 er látinn og 71 slasaðist þegar sprenging varð í eldsneytisleiðslu í Mexíkó í gærkvöldi. Leki hafði komið að leiðslunni og var fólk að ná sér í bensín þegar sprengingin varð og gríðarmikill eldur blossaði upp. 

Að sögn vitna hafði hópur fólks komið að leiðslunni með sultukrukkur og fötur til þess að ná sér í nokkra dropa af bensíni þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda til þess að sporna við eldsneytisþjófnaði. 

Á myndskeiðum sem tekin voru upp á vettvangi má sjá örvæntingarfullt fólk hlaupa í burtu öskrandi á hjálp á meðan eldhafið lýsti upp næturhimininn í Tlahuelilpan, sem er í Hidalgo-ríki (um 105 km frá höfuðborginni, Mexíkóborg).

AFP-fréttastofan ræddi við Fernando Garcia en forvitni rak hann á vettvang og skömmu síðar varð sprengingin. Hann segist hafa reynt að aðstoða fólk en því miður hafi það reynst of seint í sumum tilvikum.

Alríkisstjórnin í Mexíkó hefur lagt áherslu á það að undanförnu að reyna að draga úr eldsneytisþjófnaði en talið er að hann hafi kostað ríkissjóð 3 milljarða Bandaríkjadala árið 2017.

AFP

Forseti Mexíkó, Andres Manuel Lopez Obrador, kom á vettvang snemma í morgun til að kanna aðstæður. Hann segist vera miður sín vegna þjáninga íbúa Tlahuelilpan og að stjórnvöld muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að aðstoða íbúana. 

Allar heilsugæslustöðvar og sjúkrahús í nágrenninu eru yfirfull en fjölmennt lið bráðaliða og slökkviliðsmanna kom á vettvang til þess að aðstoða við að slökkva eldinn og lina þjáningar þeirra sem slösuðust.

Að sögn ráðherra öryggismála hefur tekist að ná tökum á eldinum.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert