Bush færir leyniþjónustumönnum pizzur

George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, kemur færandi hendi til …
George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, kemur færandi hendi til starfsmanna leyniþjónustunnar með pizzur í kassavís. Ljósmynd/Instagram

George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur brugðið á það ráð að færa öryggis- og lífvörðum sínum pizzur, en starfsmennirnir tilheyra leyniþjónustu Bandaríkjanna og eru á meðal þeirra starfsmanna sem fá ekki greidd laun á meðan lokun alríkisstofnana stendur yfir.

„Það er tími til kominn að leiðtogar beggja hliða setji pólitíkina til hliðar, sameinist og endi þessa lokun,“ skrifar Bush með mynd sem hann birti á Instagram þar sem hann færir starfsmönnum sínum pizzur í kassavís.

Um fjórðung­ur banda­rískra rík­is­stofn­ana hef­ur verið lokaður í rúm­lega fjórar vik­ur þar sem DonaldTrump Bandaríkjaforseti hef­ur neitað að skrifa und­ir fjár­lög árs­ins nema þar verði sett sér­stakt fjár­magn til að reisa múr á landa­mær­um Banda­ríkj­anna að Mexí­kó.

Lokunin hefur áhrif á um 800.000 starfsmenn sem ýmist hafa lagt niður störf eða starfað launalaust, eins og tilfellið er hjá flestum þeim 6000 starfsmönnum leyniþjónustunnar sem lokunin hefur áhrif á.

George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hugsar vel um þá sem …
George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hugsar vel um þá sem sinna öryggisgæslu fyrir hann. AFP

Það er hægara sagt en gert fyrir starfsmenn leyniþjónustunnar að leggja niður störf og sendi Nancy Pelosi, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, Trump bréf fyrr í vikunni þar sem hún hvet­ur hann til að fresta ár­legri stefnuræðu sinni (e. state of the uni­on), meðal annars vegna þess að ekki væri að hægt að tryggja öryggi hans eða áhrofenda vegna þess ástands sem skap­ast hef­ur vegna lok­ana al­rík­is­stofn­ana.

„Leyniþjónustan er lömuð vegna skorts á fjárframlögum,“ stóð meðal annars í bréfi Pelosi til forsetans. Trump greip til sinna ráða og svaraði Pelosi bréfleiðis þar sem hann frestaði ferð hennar til til Brus­sel, Af­gan­ist­an og Egypta­lands með örskömmum fyrirvara. Þar sem Trump er æðsti yf­ir­maður herafla Banda­ríkj­anna hef­ur hann vald til að hafa áhrif á flug­ferðir þing­manna sem nýta jafn­an flug­vél­ar hers­ins til ferðalaga.

Trump sagði í bréf­inu að Pe­losi geti ferðast á eig­in veg­um kjósi hún það en hann vilji helst hafa hana í höfuðborg­inni svo þau geti átt sam­tal um fjá­mögn­un landa­mæramúrs­ins. Pe­losi hef­ur hingað til full­yrt að ekki komi til greina að verða við kröf­um Trumps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert