Flestir vilja úr ESB án samnings

Meirihluti Breta er ósammála því að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, …
Meirihluti Breta er ósammála því að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, stæði sig betur í að takast á við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu en Theresa May forsætisráðherra. AFP

Flestir Bretar vilja yfirgefa Evrópusambandið án þess að samið verði um sérstakan útgöngusamning við sambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið ICM gerði fyrir breska dagblaðið Guardian.

Spurt var um afstöðu fólks til þeirra leiða sem rætt hefur verið um í Bretlandi til þess að takast á við fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í kjölfar þjóðaratkvæðisins í landinu sumarið 2016 þar sem meirihluti kjósenda samþykkti að ganga úr sambandinu.

Þannig sögðust 28% aðspurðra vilja að Bretland færi úr Evrópusambandinu án sérstaks útgöngusamnings, 24% að haldið yrði annað þjóðaratkvæði og 13% að reynt yrði að semja um „mýkri“ útgöngu sem fæli í sér að Bretar yrðu áfram innan ákveðinna hluta sambandsins eins og innri markaðar þess og mögulega tollabandalaginu.

Þá vilja 11% að boðað verði til nýrra þingkosninga í Bretlandi og 8% að Theresa May, forsætisráðherra landsins, héldi áfram að reyna að koma útgöngusamningi, sem hún samdi um við Evrópusambandið og var hafnað á dögunum með miklum mun í neðri deild breska þingsins, í gegnum þingið.

Meirihluti aðspurðra, eða 56%, segjast ósammála þeirri fullyrðingu að Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, myndi standa sig betur í að takast á við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu en May. Þar af segjast 47% mjög ósammála því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert