Lokaðist úti og fraus í hel

Miklar frosthörkur eru nú í austurhluta Kanada.
Miklar frosthörkur eru nú í austurhluta Kanada. Kort/Google

Kanadísk kona á tíræðisaldri lést af völdum ofkælingar er hún læstist úti á dvalarheimilinu sem hún bjó á. Dvalarheimilið er í Montreal, en mikill kuldi er nú í austurhluta Kanada.

Konan, Hélène Rowley Hotte, sem var móðir Gilles Duceppe, fyrrverandi stjórnmálamanns í Quebec, fannst á sunnudagsmorgun í snjónum fyrir utan dvalarheimilið.

BBC segir skrifstofu dánardómstjóra í fylkinu hafa hafið rannsókn á dauða Rowley Hotte, en það var undir hádegi í gærmorgun sem lögregluyfirvöldum í Montreal barst símtal frá neyðarþjónustunni um að lík Rowley Hotte hefði fundist.

Talið er að hún hafi farið út af dvalarheimilinu rúmlega fjögur um nóttina, en þá kviknaði á brunaboða í húsaþyrpingunni. Rowley Hotte heyrði hins vegar illa og því er talið að hún hafi ekki heyrt að sagt var frá því í hátalarkerfinu að ekki þyrfti að rýma húsið sem hún bjó í, en dvalarheimilið er í þremur samliggjandi byggingum.

Hún hafi því lokast úti og ekki getað komist inn aftur að því er BBC hefur eftir Caroline Chevrefils, talsmanni lögreglunnar í Montreal.

Hitatölur fóru vel undir frostmark í Montreal um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert