Sagaði sig út úr fangelsi

Felix Dorfin.
Felix Dorfin. AFP

Frakki, sem á yfir höfði sér dauðarefsingu í Indónesíu, flúði á ævintýralegan hátt úr fangelsi í gær. Hann sagaði í sundur rimla sem voru fyrir glugga varðhaldsherbergisins á annarri hæð og notaði sarong og gluggatjöld til þess að síga niður til frelsis að sögn lögreglu.

Felix Dorfin, sem er 35 ára gamall, flúði úr haldi á indónesísku eyjunni Lombok og telur lögregla að hann sé enn á eyjunni.

Dorfin var handtekinn í september á flugvellinum á Lombok sem er næsta eyja við Bali. Reyndist falskur botn vera á ferðatösku hans og hafði hann falið þar fjögur kíló af fíkniefnum; kókaín, e-töflur og amfetamín. Ekki hefur verið lögð fram krafa saksóknara um refsingu en miðað við magn fíkniefna er líklegt að farið verði fram á dauðadóm. 

Yfirvöld í Indónesíu hafa tekið nokkra fanga af lífi fyrir fíkniefnasmygl á undanförnum árum. Til að mynda Andrew Chan og Myuran Sukumaran, höfuðpaura fíkniefnasmyglhringsins Bali Nine, árið 2015. 

Sarong.
Sarong. Wikipedia/alex.ch
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert