Rofar til í fjárlagadeilu á Bandaríkjaþingi?

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, mun leggja fram frumvarp …
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, mun leggja fram frumvarp á fimmtudag sem gerir ráð fyrir fjármögnun landamæramúrsins. AFP

Bandaríkjaþing mun á fimmtudag kjósa um tvö aðskilin frumvörp sem geta, verði þau samþykkt, bundið endi á lokanir ríkisstofnana sem varað hafa í á fimmtu viku. Annað frumvarpið nýtur stuðnings Donald Trumps Bandaríkjaforseta og er þar gert ráð fyrir 5,7 milljörðum dollara í múrinn sem forsetinn vill reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Hitt frumvarpið gerir einfaldlega ráð fyrir að fjárlög fáist framlengd til 8. febrúar.

New York Times segir frumvörpin vera málamiðlun milli Mitch McConnell, leiðtoga repúblikana í öldungadeildinni og Chuck Schumer, leiðtoga demókrata í deildinni. Um sé að ræða fyrstu mögulegu vísbendingu um að leið geti verið út úr deilunni sem hefur gert 800.000 ríkisstarfsmenn launalausa í á fimmtu viku.

„Fólk spyr hvort ekki sé nein leið út úr þessum vanda og til að létta byrðunum af þeim 800.000 alríkisstarfsmönnum sem ekki fá greitt,“ sagði Schumer og spurði hvort ekki væri einhver leið til að koma starfi ríkisstofnana aftur í gang og að síðar yrði rætt um landamæraöryggi.

McConnell mun leggja fram frumvarpið þar sem gert er ráð fyrir fjármögnun til múrsins og segir Reuters-fréttaveitan ólíklegt að það fáist samþykkt.

Donald Trump Bandaríkjaforseti stefnir enn á að halda stefnuræðu sína …
Donald Trump Bandaríkjaforseti stefnir enn á að halda stefnuræðu sína í þinginu í lok þessa mánaðar. AFP

Þá segir Reuters Trump enn hafa hug á að halda stefnuræðu sína á Bandaríkjaþingi 29. þessa mánaðar þrátt fyrir að demókratar þrýsti á forsetann að fresta stefnuræðunni vegna deilunnar.

Á laugardag lagði Trump fram tillögu um að bundinn yrði endir á lokanir ríkisstofnana. Kvaðst forsetinn vera tilbúinn að samþykkja fulla fjárveitingu til fjórðungs þeirra ríkisstofnana sem lokanirnar nái til, gegn því skilyrði að fjárveiting fyrir múrnum yrði samþykkt. Þá kvaðst hann einnig tilbúinn að end­ur­vekja tímabundið Daca-úrræðið, sem heimilar ungum inn­flytj­end­um að dvelja í Banda­ríkj­un­um á ákveðnum for­send­um. Var þessum tillögum forsetans hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert