Skipulögðu árás gegn samfélagi múslima

Frá vinstri: Vincent Vetromile, Brian Colaneri og Andrew Crysel eru …
Frá vinstri: Vincent Vetromile, Brian Colaneri og Andrew Crysel eru ákærðir, ásamt 16 ára dreng, fyrir að hafa skipulagt árás á samfélag múslima. Ljósmynd/Lögregla í Greece

Fjórir eru nú í haldi fyrir að hafa skipulagt tilræði gegn samfélagi múslima í New York-ríki. BBC segir þrjá karla og einn ungling hafa verið handtekna og eru þeir ákærðir fyrir að hafa haft heimatilbúnar sprengjur og skotvopn í fórum sínum.

Er hópurinn sagður hafa skipulagt tilræði gegn Islamberg-samfélaginu, sem pakistanskur múslimaklerkur stofnaði á níunda áratug síðustu aldar.

Upp komst um áætlunina eftir að lögregla fékk ábendingu frá samnemanda unglingsins.

Samsæriskenningasmiðir hafa áður beint sjónum sínum að Islamberg-samfélaginu, sem þeir segja vera þjálfunarbúðir fyrir hryðjuverkamenn. Þannig var Robert Doggart dæmdur árið 2017 fyrir að hafa ætlað að kveikja í mosku samfélagsins tveimur árum fyrr.

Voru saman í skátunum

Mennirnir þrír, Andrew Crysel, 18 ára, Vincent Vetromile, 19 ára, og Brian Colaneri, 20 ára, munu koma fyrir rétt á morgun. Allir eru þeir ákærðir fyrir samsæri og fyrir að hafa ólögleg vopn í fórum sínum. 16 ára drengur, sem ekki er nefndur á nafn, er einnig ákærður í málinu.

Segir lögregla að minnsta kosti þrjá mannanna hafa verið saman í skátunum. Hópurinn sem kemur frá borginni Greece í norðvesturhluta fylkisins, bjó til að minnsta kosti þrjár heimatilbúnar sprengjur sem innihéldu m.a. nagla. Sprengjurnar fundust á heimili 16 ára drengsins. 23 skotvopn fundust þá á hinum ýmsu stöðum í tengslum við rannsóknina.

Patrick Phelan, lögreglustjóri Greece, sagði lögrelgu hafa hafið rannsókn eftir að samnemandi 16 ára drengsins greindi frá ummælum sem hann varð vitni að sl. föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert