Mueller er vofan yfir Washington

Robert Mueller, sérstakur saksóknari, sést sjaldan á almannafæri og lætur …
Robert Mueller, sérstakur saksóknari, sést sjaldan á almannafæri og lætur dómskjölin um að tala sínu máli. AFP

Hann vofir yfir stjórnmálalífinu í Washington eins og vofan í söngleik Andrew Loyd Webbers, Phantom of the Opera. Enginn virðist nokkurn tímann sjá Robert Mueller, sérstakan saksóknara í rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016 og tengslum framboðs Trumps þar við. Mueller heyrist heldur aldrei tjá sig.

Nærveru Muellers er engu að síður stöðugt vart, m.a. í gegnum ákærur og gögn sem rata til dómstóla ein á eftir annarri og sem halda logunum lifandi í vangaveltum um hvaða upplýsingar Mueller hafi um Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Rannsókn Muellers hefur nú staðið yfir í 18 mánuði og segir AFP-fréttaveitan stjórnmálaelítuna í Washington enn vera jafn hugfangna og fyrr af rannsókninni. Nýjasta útspil Muellers var að mæla með því í gær við dómstóla að Michael Flynn, fyrrverandi ráðgjafi Trumps í þjóðaröryggismálum sem logið hafði að rannsakendum, þyrfti ekki að sitja inni. Segir í skjölum Muellers að þó að Flynn hefði gerst sekur um „alvarlegt“ brot, hafi hann sýnt fullkominn samstarfsvilja í fjölda mála og hefði fallist á að sæta yfirheyrslu 19 sinnum.  Saksóknarinn lætur þó ekkert uppi um hvað Flynn hafi sagt honum.

Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi forseta Bandaríkjanna. Mueller mælir með að …
Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi forseta Bandaríkjanna. Mueller mælir með að hann verði ekki látinn sitja inn vegna brota sinna. AFP

Jedi-riddari eða Game of Thrones-persóna?

Demókratar líta á Mueller sem baráttumann gegn óréttlæti, en hann er oft sýndur í svonefndum „meme“-gamanmyndum á samfélagsmiðlum sem Jedi-riddari úr Star Wars-myndunum. Aðrir nota Game of Thrones með uggvænlegum tilvísunum um að Mueller sé að koma.


 

AFP segir repúblikana óttast þau áhrif sem möguleg niðurstaða rannsóknar Muellers kunni að hafa á ímynd flokksins og forsetinn sjálfur sýnir æ meiri streitumerki með hverri ákæru sem Mueller leggur fram. Hefur Trump skrifað á Twitter að rannsóknin sé „ólöglegar nornaveiðar“.

Tók á málum mafíu og rússneskra njósnara

En hver er Mueller eiginlega?

Mueller er 74 ára fyrrverandi sjóliði sem starfaði sem almennur saksóknari sem tók á málum mafíu og rússneskra njósnara áður en hann var ráðinn forstjóri FBI, viku eftir hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana í New York í september 2001.

AFP segir að þau 12 ár sem Mueller var forstjóri FBI hafi hann verið mjög áberandi í starfi, þar sem hann hafi verið virtur en ekki beint elskaður. Nú er hann hins vegar hin ósýnilega stjarna Washington.

Þrátt fyrir það vita þeir sem ýmist hvetja hann áfram eða óttast lítið um manninn sjálfan.

Horaður en virðulegur, þótt ekki hafi sést til hans nema í örfá skipti undanfarið ár. Samfélagsmiðlar eru hins vegar fljótir að greina frá því er til hans sést og hefur Mueller t.a.m. sést án allrar öryggisgæslu á gangi á götu í Washington, úti að borða á lágstemmdum veitingastað og að fá tækniaðstoð í Apple-verslun í Georgetown ásamt Anne Standish, eiginkonu sinni til 52 ára.

„Jafnvel sérstakur saksóknari þarf stöku sinnum á tækniaðstoð að halda,“ skrifaði Meghan Pianta, sem myndaði hjónin þar sem þau voru með tæknimanni Apple, á Twitter.

Í júlí sást þá til hans á flugvelli í Washington að bíða eftir flugi og var þá fyrir tilviljun staddur aðeins nokkra metra frá syni forsetans, Donald Trump Jr., sem rannsókn Muellers er einnig talin hafa beinst gegn.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt rannsókn Muellers ólöglegar nornaveiðar.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt rannsókn Muellers ólöglegar nornaveiðar. AFP

Hranalegur harðstjóri eða þolinmóður skákspilari?

Mueller býr í afgirtu hverfi í norðurhluta Virginíu og vinnur í ómerktri byggingu í Washington þar sem hann kemur og fer óséður í gegnum bílakjallara hússins.

Hann fer aldrei í Hvíta húsið til að ræða við lögfræðinga forsetans, heldur koma þeir til hans. Að mestu leyti sér á annar tugur þaulreyndra rannsakenda og saksóknara um þá vinnu sem fram fer á vettvangi. Þeir sjá jafnframt um að mæta í dómsal og eins lætur Mueller dómskjöl og kærurnar um að tala fyrir sig.

Fáir vita enda hvernig persóna Mueller er. Er hann hranalegur harðstjóri sem krafðist niðurstöðu innan við sólarhring eftir að rannsókn á árásinni á tvíburaturnunum hófst, eða er hann sá hljóði og þolinmóði skákmaður sem Rússarannsóknin gefur til kynna?

Það þykir fréttnæmt í Washington þar sem upplýsingar eru jafnan fljótar að leka út að engar fréttir leka frá skrifstofu sérstaks saksóknara. Talsmaður hans, Peter Carr, er tilbúinn að skýra allt sem þegar hefur verið lagt fram í rannsókninni, en varðandi vísbendingar um hvað sé fram undan neitar hann alltaf að tjá sig.

Trump: Ekki sá sem fólk heldur að hann sé

AFP segir þögnina þó gera embættið viðkvæmt fyrir árásum forsetans sem ítrekað hefur hótað að binda endi á rannsóknina.

„Mueller,“ sagði Trump á Twitter á mánudag, „er gjörólíkur þeim manni sem fólk heldur að hann sé. Stjórnlaus flokkur hans af reiðum demókrötum vill ekki sannleikann, þeir vilja bara lygar,“ skrifaði forsetinn.

Þrátt fyrir að her sjónvarpssérfræðinga eyði klukkutímum daglega í vangveltur um stöðu rannsóknarinnar veit enginn utan skrifstofu sérstaks saksóknara nákvæmlega hversu langt hún er komin.



Það kynni hins vegar allt að breytast á föstudag þegar búist er við að teymi Muellers leggi fram frekari gögn í máli sínu gegn Michael Cohen, fyrrverandi lögfræðingi forsetans, en Cohen hefur líkt og Flynn sýnt samstarfsvilja með rannsókninni.

Reynist Mueller hins vegar samur við sig mun hann ekki upplýsa um málið allt fyrr en hann er sjálfur tilbúinn til. Aðdáendur hans eru þó orðnir nokkuð óþolinmóðir og til merkis um það lauk gamanþættinum Saturday Night Live síðasta laugardag með breyttri útgáfu af jólalagi söngkonunnar Mariuh Carey, nema nú var sungið „Mueller, All I want For Christmas is You.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert