Mun ekki fresta stefnuræðunni

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sent bréf til Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, þar sem hann segist ætla að flytja árlega stefnuræðu sína á þriðjudaginn í næstu viku eins og áður var fyrirhugað.

Pelosi hafði hvatt Trump til að fresta ræðunni vegna ástandsins sem hefur skapast vegna lokana alríkisstofnana í landinu.

Í bréfi sem hún sendi Trump 3. janúar bauð hún honum að halda ræðuna en í öðru bréfi 16. janúar varaði hún hann við því mæta í þinghúsið og flytja ræðuna af öryggisástæðum.

Í bréfi Trump segist hann ekki vita til neinna vandamála í tengslum við öryggismál eftir að hafa ráðfært sig við bandarísku leyniþjónustuna. Þess vegna ætli hann að halda ræðuna á sama tíma og upphaflega var áætlað.

„Það yrði mjög sorglegt fyrir landið okkar ef stefnuræðan yrði ekki flutt á réttum tíma og það sem meira er, á réttum stað!“ skrifaði forsetinn, að því er New York Times greindi frá.

Nancy Pelosi.
Nancy Pelosi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert