Tafir á flugi vegna lokananna

LaGuardia flugvöllurinn í New York. Tafir hafa verið á flugi …
LaGuardia flugvöllurinn í New York. Tafir hafa verið á flugi þaðan vegna deildu Trumps og þingsins. Kort/Google

Fréttir berast nú víða að frá Bandaríkjunum af töfum á flugumferð sem rekja má til lokana ríkisstofnanna í kjölfar deilu forseta og þings um fjárlög. Segir BBC ástæðuna m.a. vera skort á flugumferðastjórum.

Lokanir ríkisstofnanna, sem hafa áhrif á um 800.000 alríkisstarfsmenn hafa nú varað lengur en nokkurn tímann áður í sögu ríkisins. Margir þeirra hafa þurft að vinna launalaust nú í á annan mánuð, m.a. flugumferðastjórar og er það farið að hafa áhrif á mætingu.  

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta bera ábyrgð á töfunum en verkalýðsfélög í flugiðnaðinum vöruðu í gær við hættunni sem starfsmannaskorturinn geti valdið.

„Við getum ekki einu sinni reikna út hættuna sem nú ríkir, eða séð fyrir á hvaða tímapunkti kerfið muni hrynja,“ sagði í sameiginlegri yfirlýsingu félaga flugumferðastjóra, flugstjóra og flugfreyja.

35 dagar eru nú frá því að lokanirnar hófust, en Trump hefur neitað að undirrita nýtt fjárlagafrumvarp sé þar ekki gert ráð fyrir 5,7 milljörðum dollara til þess að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Demókratar á þingi neita aftur á móti að samþykkja fjárveitingu fyrir múrinn og er deilan því í sjálfheldu. Pelosi biðlaði til Trump á Twitter í dag um að „hætta að stofna öryggi og hagsæld þjóðarinnar í hættu“ og gera ríkisstofnunum kleift að opna á ný.

BBC segir að flug um LaGuardia flugvöllinn í New York, sem er einn annasamasti flugvöllur landsins, hafa verið stöðvað skömmu eftir tíu í morgun. Bandaríska flugumferðaeftirlitið FAA hefur staðfest að flug sé nú hafið um flugvöllinn að nýju. Segir í yfirlýsingu FAA að aukning í veikindum flugumferðastjóra hafi valdið töfunum. Þá hafa einnig orðið tafir á flugvöllum í Fíladelfíu og Newark sem tengja má starfsmannaskorti.

Hvetur FAA þá sem eiga bókað flug til að fylgjast vel með hvort að áætlanir standist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert