Síðustu kolabrennslunni lokað 2038

Kolabrennsla í Niederaussem í Vestur-Þýskalandi.
Kolabrennsla í Niederaussem í Vestur-Þýskalandi. AFP

Þjóðverjar kynntu í dag metnaðarfullar aðgerðir til þess að láta af kolabrennslu í landinu í síðasta lagi árið 2038. Aðgerðaráætlunin hljóðar upp á 80 milljarða evra, helmingur þess fjár rennur til svæðanna þar sem kolabrennslum verður lokað en hinum helmingnum verður varið til þess að halda aftur af raforkuverðshækkunum í landinu.

AFP greinir frá málinu í dag en þar kemur fram að víðtækt samráð hafi verið haft um tillögurnar. Í kolaráðinu sem vann aðgerðaráætlunina og var skipað af ríkisstjórn landsins áttu sæti loftlagssérfræðingar, stjórnmálamenn, hagsmunaaðilar kolabrennsluiðnaðarins og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar. Ráðið skilaði af sér niðurstöðum í morgun eftir stíf fundarhöld.

Ronald Pofalla, formaður kolaráðsins, heldur á skýrslunni á blaðamannafundi í …
Ronald Pofalla, formaður kolaráðsins, heldur á skýrslunni á blaðamannafundi í Berlín í morgun. AFP

Formaður hópsins, Ronald Pofalla, segir daginn í dag sögulegan en tillögur ráðsins fara nú til ríkisstjórnarinnar. Í frétt AFP segir að þess sé vænst að ríkisstjórnin hrindi aðgerðaráætlun hópsins af stað. Fundur er fyrirhugaður í næstu viku hjá Angelu Merkel Þýskalandskanslara, Olaf Scholz fjármálaráðherra og svæðisstjórum Þýskalands.

Í frétt AFP segir að samkvæmt áætluninni verði fyrstu og mest mengandi kolabrennslunum lokað árið 2022 og er þá horft til þeirra sem brenna brúnkol til raforku. Árið 2030 verður fleiri kolabrennslum lokað og er þá horft til þess að raforkuframleiðsla með kolabrennslu verði komin niður í þriðjung þess sem hún er í landinu í dag. Þá er fyrirhugað að síðustu verksmiðjunni verði lokað árið 2038 en ekki er útilokað að því verði flýtt til 2035 ef aðstæður leyfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert