Dauðastríð hjartar í plastflækju

Horn og haus hjartarins voru svo kirfilega vafin í plastþráð …
Horn og haus hjartarins voru svo kirfilega vafin í plastþráð með stálvír, leifar af gamalli rafmagnsgirðingu, að hann hefur ekki getað étið neitt að ráði enda raðmagur. Ljósmynd/Bjørn-Tore Knudsen

Óvænt og skelfileg sjón blasti við Björgvinjarbúanum Hege Milde þegar hún viðraði Molly, gullinsækinn sinn, á miðvikudaginn en þá gengu þær fram á grindhoraðan hjört sem var svo máttfarinn að hann sýndi ekki minnstu viðbrögð þótt Milde færi um skóglendið í Hylkje með tíkina í lausagöngu.

Orsökin blasti við: Dýrið hafði flækt horn sín og haus svo kirfilega í plastþráð með stálvír að innanverðu, leifum af rafmagnsgirðingu einhvers staðar úr héraðinu, að útilokað var að það hefði getað étið nokkuð að ráði vegna fjötranna. Ekki bætti úr skák að trjágrein var flækt í plastvöðulinn og lá þar lóðrétt sem líklega hefur einnig hindrað hjörtinn í að komast í bitfæri við æti.

„Hjörturinn horfði bara á okkur og það var svo skrýtið að hann sýndi engin óttamerki,“ segir Milde í samtali við Bergens Tidende, „hundurinn hreyfði hvorki legg né lið, það var eins og hún skildi að hjörturinn væri sárþjáður.“

Hryggjarliðirnir eins og hnífsegg

Hún beið ekki boðanna heldur hafði samband við villidýraeftirlitsmanninn (n. viltkontakt) í Bergen, Bjørn-Tore Knudsen, sem var mættur á staðinn eftir rúman stundarfjórðung.

Sá Knudsen ekki önnur ráð en að skjóta dýrið á staðnum vegna ástands þess, hjörturinn var svo magur að hryggjarliðir hans stóðu eins og hnífsegg upp úr bakinu, lýsti Knudsen aðkomunni, og bætti því við að feldurinn hefði verið farinn af hryggjarsvæðinu á köflum, líklega eftir að dýrið velti sér í örvæntingarfullri tilraun til að losna úr plastinu.

„Þetta er rafmagnsgirðing eins og margir landeigendur hér um kring nota,“ sagði Knudsen viss í sinni sök og benti á plastfestingar á þræðinum sem notaðar eru til að festa rafmagnsleiðsluna við girðingarstólpa. „Vandamálið er að menn eru ekkert sérstaklega duglegir við að taka rafmagnsgirðingarnar niður þegar þær eru ekki í notkun, en það ber þeim skylda til að gera,“ sagði hann enn fremur og bætti því við að hann sinnti einu til þremur útköllum á ári vegna sambærilegra tilfella, bara þarna í Åsene sem þessi hluti Bergen kallast.

„En ég hef aldrei séð nokkuð sem kemst í hálfkvisti við þetta,“ sagði Knudsen í samtali við mbl.is nú í kvöld þegar blaðamaður sóttist eftir að fá að nota þær sláandi myndir sem villidýraeftirlitsmaðurinn tók á vettvangi og fylgja fréttinni.

Bjørn-Tore Knudsen, villidýraeftirlitsmaður í Bergen, sagði hryggjarliðina hafa staðið eins …
Bjørn-Tore Knudsen, villidýraeftirlitsmaður í Bergen, sagði hryggjarliðina hafa staðið eins og hnífsegg upp úr baki horaðs dýrsins sem hann aflífaði á vettvangi vegna ástands þess. Ljósmynd/Bjørn-Tore Knudsen

Milde, sem kom að hirtinum, sagði við Bergens Tidende að hjálparvana augnaráð dýrsins væri sem brennt í vitund hennar. „Mig langaði svo til að hjálpa honum og losa hann við fjötrana svo hann gæti farið leiðar sinnar. Ég var dágóða stund að jafna mig,“ sagði Milde.

Lesendur BT létu ekki sitt eftir liggja í athugasemdum við fréttina en þar skrifaði meðal annarra Terje Mathias Haugland: „Þarna eru margar gamlar girðingar, sumar með gaddavír, úti á víðavangi. [...] Margar þeirra voru lagðar fyrir 50 – 60 árum og hefur ekki verið haldið við. Það er sorglegt að sjá hjört þjást svona vegna slæpingja sem láta hlutina drabbast niður.“

Aftenposten fjallaði einnig um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert