Vara við krókódílum í kjölfar flóða

Yfirvöld í Queensland í Ástralíu vara íbúa nú við að krókódílar og snákar kunni að vera á ferð í úthverfum í kjölfar mikilla flóða sem komið hafa í kjölfar úrhellisrigningar síðustu átta daga.

Um 1.100 íbúar bæjarins Townsville í norðurhluta Queensland-fylkis hafa verið fluttir á brott, en flóðin eru þau mestu í manna minnum og hefur ástralski herinn verið kallaður út til að aðstoða íbúa að sögn BBC. Hafa hermenn m.a. komið fólki til hjálpar sem flúið hafði upp á húsþök.

Í Townsville tóku yfirvöld ákvörðun um að opna gáttir Ross-stíflunnar til að forða því að stíflan brysti, en með því var stífluvatnið látið flæða yfir 2.000 hús á svæðinu.

Úrkomumagnið í hlutum fylkisins hefur náð allt að 1,5 metrum frá síðustu helgi, sem er meira en mælist í meðalári á sumum þessara staða. Í bænum Ingham, norður af Townsville mældist úrkomumagnið í gær 419 mm og vatnshæð Ross-stíflunnar var 247% áður en gripið var til þess ráðs að opna flóðgáttirnarnar.

Guardian segir um 1.000 manns hafa dvalið í neyðarskýlum í nótt.

Bærinn Townsville í Queensland hefur orðið illa fyrir barðinu á …
Bærinn Townsville í Queensland hefur orðið illa fyrir barðinu á flóðum í kjölfar úrhellisrigningar undanfarna daga. AFP

Aldrei séð víðlíka flóð

Annastacia Palaszczuk, fylkisstjóri Queensland, „sagðist aldrei hafa séð viðlíka flóð og þegar stíflugáttirnar voru opnaðar og 1.900 m3 af stífluvatni flæddu út. Hún varaði íbúa þó í dag við því að hættan á skyndiflóðum af völdum rigninganna væri ekki liðin hjá.

Leeanne Enoch, sem fer með umhverfismál í fylkinu, hefur þá varað íbúa við hættunni sem stafi af krókódílum.

„Krókódílar vilja helst vera í stilltu vatni og þeir kunna því að flakka um í leit að rólegri stað á meðan vatnshæðin lækkar,“ sagði Enoch. Því kunni krókódílar vel að sjást á ferð yfir vegi og eins kunni þeir að birtast á óvenjulegum stöðum, t.d. í tjörnum við bóndabæi eða í vatnsbólum sem þeir hafi ekki sést við áður.

„Að sama skapi geta snákar vel synt og geta birst skyndilega,“ sagði Enoch.

Ástralskur hermaður aðstoðar íbúa við að komast á brott.
Ástralskur hermaður aðstoðar íbúa við að komast á brott. AFP

„Heimilum okkar var fórnað“

Andrew Roberts, einn íbúa Townsville sagðist óttast meira að vera étinn af krókódíl heldur en hann óttaðist flóðavatnið á heimili sínu sem þó náði honum upp í mitti. „Þetta er svolítið óhugnanlegt af því að þegar það flæðir í Townsville þá komast krókódílarnir út í vatnið,“ sagði Roberts.

Hann var einnig ósáttur við yfirvöld vegna þeirra ákvörðunar að opna stíflugáttirnar. „Við vorum eins og lömb sem leidd voru til slátrunar. Heimilum okkar var fórnað fyrir restina af Townsville. Þetta hefði aldrei átt að verða svona slæmt. Af hverju var ekki hleypt úr stíflunni fyrr og vatninu þar með gefið færi á að komast burt?“ sagði hann. „Hausar munu fjúka vegna þessa.“

Meira hefur rignt í Townsville síðustu átta daga en sem …
Meira hefur rignt í Townsville síðustu átta daga en sem nemur úrkomu í meðalári. Yfirvöld í fylkinu létu því opna gáttir stíflu Ross-árinnar til að forða því að hún brysti en við það flæddi yfir fjölda heimila. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert