Ákærður fyrir kynferðislegt ofbeldi

Koffi Olomide.
Koffi Olomide. AFP

Réttarhöld hófust yfir tónlistarmanninum Koffi Olomide í Frakklandi í dag en hann er sakaður um að hafa beitt fjóra dansara kynferðislegu ofbeldi þegar þeim var haldið nauðugum í húsi fyrir utan París.

Réttarhöldin fara fram fyrir luktum dyrum en ekki liggur fyrir hvort tónlistarmaðurinn, sem heitir réttu nafni Antoine Agbepa Mumba og er frá Austur-Kongó, sé viðstaddur.

Olomide, sem er frumkvöðull soukous sem spratt út úr kongósku rúmbunni, neitar sök og eins ásökunum um að hafa aðstoðað dansarana við að koma með ólöglegum hætti og ekki greitt þeim laun.

Að sögn dansaranna var þeim haldið af þremur mönnum í húsinu í Asnieres-sur-Seine, norðaustur af París, þegar Olomide var á tónleikaferðalögum eða við upptökur í Frakklandi frá 2002 til ársins 2006. Voru símar og vegabréf þeirra tekin af þeim og þeir neyddir til kynmaka með Olomide. Ef þeir reyndu að berjast á móti hafi hann beitt þá ofbeldi. Kynferðisofbeldi hafi átt sér stað í húsinu, inni á baðherbergi í matvöruverslun og eins í Austur-Kongó. 

Dönsurunum tókst að flýja að næturlagi út úr húsinu í júní 2006 og hafa ekki þorað að snúa aftur til heimalandsins, Austur-Kongó,  vegna ótta við hefnd. Olomide fór frá Frakklandi árið 2009 þegar hann var ákærður og lögmaður hans, Emmanuel Marsigny, var í síðustu viku ekki viss um að skjólstæðingur hans myndi vera viðstaddur réttarhöldin.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem Olomide er ákærður fyrir ofbeldi. Hann sat um tíma í fangelsi í Austur-Kongó árið 2016 fyrir að hafa sparkað í einn af dönsurum sínum. Hann fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm árið 2012 fyrir að hafa beitt upptökustjóra sinn ofbeldi. 

Gefin hefur verið út ákæra á hendur honum í Sambíu fyrir ofbeldi í garð ljósmyndara þar árið 2012.

Olomide var dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi í Frakklandi árið 2006 fyrir skattsvik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert