BBC vill að öryggisgæsla verði yfirfarin

Frá fundinum í El Paso í gærkvöldi, þar sem stuðningsmaður …
Frá fundinum í El Paso í gærkvöldi, þar sem stuðningsmaður forsetans réðst að kvikmyndatökumanni breska ríkisútvarpsins. AFP

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur beðið Hvíta húsið um að fara yfir og endurskoða öryggismál sín í kjölfar atviksins sem átti sér stað í gærkvöldi, er stuðningsmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta réðst á kvikmyndatökumann BBC á fjöldafundi forsetans í El Paso í Texas-ríki.

„Aðgangur að fjölmiðlasvæðinu var ekki vaktaður,“ fullyrðir Paul Danahar, fréttastjóri BBC í Ameríku, á samfélagsmiðlinum Twitter í dag. Hann segist jafnframt hafa beðið Söruh Sanders, fjölmiðlafulltrúa forsetans, um að ráðist verði í endurskoðun og yfirferð á öryggisgæslu í kjölfar árásarinnar.

Ron Skeans, myndatökumaðurinn sem varð fyrir árásinni, meiddist ekki, en atlagan átti sér stað eftir að Trump hafði talað fjálglega um meinta hlutdrægni fjölmiðla.

Eftir árásina, sem olli nokkru uppþoti í salnum, gerði forsetinn hlé á ræðu sinni, benti á fjölmiðlasvæðið og spurði hvort allt væri í lagi. Trump hefur ítrekað verið gagnrýndur fyrir tal sitt um hlutdrægni fjölmiðla, en A.G. Sulzberger, útgefandi New York Times, hefur meðal annars komið því á framfæri við forsetann að slíkt tal geti mögulega verið hættulegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert