Drap sjaldgæfa geit fyrir 13,2 milljónir

Markhor-geit.
Markhor-geit. Ljósmynd/Wikipedia

Bandarískur veiðimaður hefur vakið mikla athygli og reiði eftir fréttir þess efnis að hann greiddi 110.000 dollara, jafnvirði 13,2 milljóna íslenskra króna, fyrir leyfi til að drepa sjaldgæfa fjallageit í Pakistan áður en hann birti mynd af sér með dauðu dýrinu.

Á myndskeiði sem var dreift á samfélagsmiðlum má sjá Bryan Kinsel Harlan klifra fjöll í Gilgit-héraði í norðurhluta Pakistan áður en hann skaut geitina. Hann gaf leiðsögumönnum síðan „fimmu“ áður en hann tók dýrið upp á hornunum.

„Þetta var auðvelt en skotið var ekki af löngu færi og ég er ánægður að taka þennan minjagrip með mér,“ var haft eftir Harlan.

Pakistanskir fjölmiðlar greina frá því að aldrei áður hafi verið greitt hærra verð fyrir leyfi til að drepa dýr þar í landi. Harlan er sagður þriðji Bandaríkjamaðurinn á undanförnum vikum sem greiðir meira en 100.000 dollara í veiðileyfi.

„Geitur eru meinlaus dýr, ekki bikarar,“ skrifuðu dýraverndunarsamtökin PETA á Twitter. Einhverjir Pakistanar hafa óskað eftir því að bannað verði að veiða þessa geitategund í landinu. Um 5.700 geitur af tegundinni markhor eru í heiminum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert