Hvað bíður þessara barna?

Tvær franskar konur sem fóru til Sýrlands en vilja komast …
Tvær franskar konur sem fóru til Sýrlands en vilja komast heim aftur. AFP

Þau fæddust í ríki sem ekki er lengur til. Feður þeirra flestra eru dánir og mæður þeirra eru frá ríkjum sem vilja þær ekki aftur. Þetta eru börnin sem koma frá Baghouz.

Skítug andlit þeirra sjást vart fyrir svörtum slæðum mæðranna. Þau eru að fara frá síðasta vígi vígasamtaka Ríkis íslams í austurhluta Sýrlands.

Þarna eru börn á öllum aldri, allt niður í þriggja mánaða gömul. Þau sífra í kór á meðan eldri börnin sitja hljóð hjá. Börnin virðast klædd í allt sem hægt var að finna, peysur, jakka, teppi og hatta. 

AFP

Erfitt er að segja til um aldur mæðra þeirra og heilsufar þar sem þær eru huldar svörtum klæðnaði frá toppi til táar. En augu þeirra bera merki um erfiða tíma, hendur þeirra svartar af skít og grannar.

Matur og hreint vatn hefur verið af skornum skammti vikum saman í þorpinu Baghouz á meðan hersveitir sýrlensku lýðræðissveitanna voru með þorpið í herkví. En þrátt fyrir deyjandi kalífaveldi halda börn áfram að fæðast. 

Khadija er eins árs gömul en hún fæddist undir stjórn Ríkis íslams í héraðinu Deir Ezzor. Hún er vafin inn í þykkt teppi. Móðir hennar, Marah, sem er 17 ára gömul, er frá borginni Manbij í norðurhluta Sýrlands. Faðir hennar, sem er á svipuðu reki og móðirin, var sendur burt á palli annars bíls ásamt öðrum körlum. 

AFP

Þegar fréttamaður AFP spyr Marah um framtíð dóttur hennar tekur hún teppið frá andliti barnsins og horfir á það tómum augum.

Fólk af ólíku þjóðerni, Írakar, Tyrkir, Rússar, Úkraínubúar og Frakkar. Ekkert þeirra veit hvað bíður þeirra. Óviss framtíð í búðum sem Kúrdar reka í norðurhluta Sýrlands? Þar sem þúsundir sem eru í sömu sporum og þetta fólk eru þegar í haldi. 

AFP

Leiðin þangað er hundraða kílómetra löng eyðimerkurför. Leiðin í Al-Hol-búðirnar en að minnsta kosti 35 börn hafa dáið á þessari leið. Þar tekur við bið eftir tjaldi, dýnu og nauðsynjum. Þar geta konurnar leitað læknisaðstoðar fyrir börn sín. Ein þeirra, 19 ára stúlka, með lítið barn á mjöðminni segir: „Ég var að komast að því að ég er þunguð.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert