Leita 300 lúxusbifreiða eftir ráðstefnu

Það þykir þó mikil mildi að dýrustu bifreiðarnar, af gerðinni …
Það þykir þó mikil mildi að dýrustu bifreiðarnar, af gerðinni Maserati sem kostuðu yfir tólf milljónir íslenskra króna, eru allar fundnar og hefur verið komið fyrir á öruggum stað. mbl.is/Maserati

Leit stendur yfir að hátt í 300 lúxusbifreiðum í Papúa Nýju-Gíneu um þessar mundir, en bifreiðarnar munu ekki hafa skilað sér til yfirvalda þar í landi eftir leiðtogafund APEC sem fram fór á síðasta ári.

Greint er frá því í frétt BBC  að yfirvöld í landinu hafi fjárfest í hundruðum lúxusbifreiða frá framleiðendum á borð við Land Cruiser, Ford, Mazda og Pajero til þess að leiðtogarnir gætu ferðast með glæsibrag meðan á ráðstefnunni stóð.

Það fór hins vegar svo að 284 bifreiðar skiluðu sér aldrei og hefur sérstakt lögreglulið verið sett saman til þess að hafa uppi á bifreiðunum.

Það þykir þó mikil mildi að dýrustu bifreiðarnar, af gerðinni Maserati sem kostuðu yfir tólf milljónir íslenskra króna, eru allar fundnar og hefur verið komið fyrir á öruggum stað. „Allar 40 Maserati-bifreiðarnir og Bentleyarnir þrír eru í toppstandi,“ segir lögreglustjórinn í Papúa Nýju-Gíneu.

Samkvæmt lögreglu hefur hið minnsta níu bifreiðum verið stolið og varahlutir verið teknir úr öðrum. Þá var nokkrum bifreiðanna skilað í mjög slæmu ásigkomulagi.

Mikil fátækt ríkir í Papúa Nýju-Gíneu og höfðu yfirvöld þar í landi bundið við það vonir að ráðstefnan myndi draga að fjárfesta. Ríkisstjórnin var harðlega gagnrýnd fyrir fjármunina sem eytt var í ráðstefnuna, en auk hundraða bifreiða sem keyptar voru þurfti að kalla til hermenn frá Ástralíu, Bandaríkjunum og Nýja-Sjálandi til þess að tryggja öryggi gesta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert