Leita eiganda fótar í Nike-skó

Um er að ræða gráan Nike Free RN-skó með hvítum …
Um er að ræða gráan Nike Free RN-skó með hvítum reimum, hvítum sóla og bláum sokk. Mynd úr safni. Ljósmynd/Tollstjóri

Saksóknari í Bresku-Kólumbíu í Kanada hefur óskað eftir aðstoð almennings við að bera kennsl á fót í nýlegum Nike-skó sem rak á land á strönd í ríkinu í september í fyrra. Fóturinn er sá fimmtándi sem rekið hefur á land á svæðinu síðan 2007.

Kanadísk yfirvöld telja ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af ástandinu, að því er segir í umfjöllun CNN um málið.

„Það bendir ekkert til þess að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað,“ segir Andy Watson, talsmaður saksóknara í Bresku-Kólumbíu. „Stundum er um náttúrulega dánarorsök að ræða, sjálfsvíg eða slys.“

En hvers vegna rekur aðeins fætur á land? Yfirvöld segja það vegna rotnunarferlis mannslíkamans og benda á að skóbúnaður verji fæturna frá náttúruöflum og sjávardýrum.

Borin hafa verið kennsl á tíu fótanna sem rekið hafa á land, en þeir tilheyrðu fólki sem tilkynnt hafði verið um að væri saknað. Í nokkrum tilfellum var um að ræða báða fætur sömu manneskjunnar.

Ekki var hægt að bera kennsl á eiganda fimmtánda fótarins sem fannst í september með DNA-prófi og hafa yfirvöld birt ljósmynd af skónum í von um að almenningur geti borið kennsl á þann sem hann átti. Um er að ræða gráan Nike Free RN skó með hvítum reimum, hvítum sóla og bláum sokk. Skórinn er á vinstri fót og í stærð 9,5.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert