Netárás gerð á maltneskan banka

Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu.
Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu. AFP

Bank of Valletta, stærsti bankinn á Möltu, varð í dag fyrir netárás tölvuþrjóta sem gerðu tilraun til þess að draga 13 milljónir evra út af reikningum bankans. Þetta segir Joseph Muscat, forsætisráðherra Miðjarðarhafsríkisins.

Maltneska ríkið er stærsti hluthafinn í bankanum, en í dag var gripið til þess ráðs að loka öllum tölvukerfum bankans og þar með einnig útibúum, hraðbönkum og netbankaþjónustu. Samkvæmt yfirlýsingu frá bankanum hafði árásin engin áhrif á reikninga viðskiptavina.

Forsætisráðherrann upplýsti þingmenn á Möltu um það að tölvuþrjótarnir hefðu reynt að færa fjármuni úr bankanum til banka í Tékklandi, Hong Kong, Bretlandi og Bandaríkjunum, samkvæmt frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert