Hætta við ákæru í 49 ára gömlu morðmáli

Cheryl Grimmer var þriggja ára er hún hvarf.
Cheryl Grimmer var þriggja ára er hún hvarf. Ljósmynd/Lögreglan í New South Wales

Embætti saksóknara í Ástralíu hefur fallið frá því að fara fyrir dóm með mál manns sem sakaður hafði verið um að hafa myrt smábarn fyrir 49 árum. BBC segir hvarf hinnar þriggja ára gömlu Cheryl Grimmer, sem hvarf af strandstað í New South Wales árið 1970, eitt dularfyllsta mál sem lögreglan þar hefur haft til rannsóknar.

Cheryl var við sturtuaðstöðu á ströndinni er hún hvarf og hefur ekkert til hennar spurst síðan. Fjöl­skylda Cheryl hafði flutt frá Bretlandi til Ástr­al­íu skömmu áður og hafði fjöl­skyld­an skroppið sam­an á strönd­ina í Wollongong.

Maður var ákærður fyr­ir morðið á Cheryl í mars 2017, en nafn hans er ekki gefið upp af því að hann var ekki orðinn 16 ára er hið meinta morð átti sér stað. Hann neitað ákærunni og í dag úrskurðaði dómari að ekki mætti nota einn af lykilþáttum í máli ákæruvaldsins í réttarhöldunum. Það varðar yfirlýsingu sem maðurinn gaf hjá lögreglu árið 1971 þegar hann var 17 ára gamall.

Kemst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að yfirlýsingin sé ekki tæk af því að maðurinn, sem var þá á unglingsaldri, hafði engan fullorðinn sér til halds og trausts er hann ræddi við lögreglu en slíkt var ekki skylda á þeim tíma. Dómari telur slíkt hins vegar ekki réttlátt, auk þess sem gáfnafar mannsins hafi verið takmarkað og hann því líklegri til að láta hafa áhrif á sig við yfirheyrslur.

Embætti saksóknara telur hins vegar ekki hægt að halda áfram með málið án yfirlýsingarinnar.

Ricki Nash bróðir Cheryl segir fjölskylduna vera eyðilagða yfir þessari þróun og að henni finnist lögregla hafa brugðist sér. „Við erum eiginlega dofin. Í áfalli,“ sagði Nash. „Það geta eiginlega engin orð lýst því hvernig okkur líður núna.“

Fjöl­skylda Cheryl hef­ur ít­rekað lýst yfir von­brigðum með að vita ekki hvað gerðist. „Mamma og pabbi dóu án þess að vita hvað gerðist og við vilj­um vita það áður en við för­um líka,“ sagði annar bróðir Cheryl, Stephen Grimmer, árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert