Tæknilega of feitur en er við hestaheilsu

Donald Trump er við hestaheilsu þótt hann mætti missa nokkur …
Donald Trump er við hestaheilsu þótt hann mætti missa nokkur kíló. AFP

Tæknilega séð fellur Donald Trump Bandaríkjaforseti í offituflokk og hann hefur bætt á sig kílóum frá því í fyrra. Læknir forsetans segir hann engu að síður vera við „mjög góða heilsu“. Forsetinn stóðst heilsufarsskoðun hjá lækninum Sean Conley í síðustu viku og segir Conley hann hafa flogið í gegn.

„Það er mín niðurstaða að forsetinn sé á heildina litið við mjög góða heilsu,“ sagði í yfirlýsingu frá Conley.

Segir í skýrslunni að Trump valdi heilsufarssérfræðingum heilabrotum, enda er ást hans á skyndibita og áhugaleysi á líkamsrækt vel þekkt. Trump vegur nú 110 kg og hefur þyngst um tvö kíló frá því í fyrra, og taldist hann þá þegar of þungur. Þá er hjartsláttur hans einnig örlítið hraðari nú, eða 70 slög á mínútu í stað 68 áður.

Doctor Theodore Strange, við læknadeild Staten Island University í  New York, sagði Trump tæknilega falla í offituflokk. Niðurstöðurnar „sýna 72 ára karlmann sem er á offitukvarða BMI-mæliskalans,“ sagði Strange. Forsetinn teljist engu að síður við góða heilsu.

Þótt lífstíll Trumps teljist óheilbrigður og forsetastarfið einkennist af streitu, vekja sérfræðingar athygli á því að hann hvorki reykir né drekkur og það hafi áhrif til góðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert