Ástsælum rappara banað

Frá blaðamannafundi lögreglunnar í Bergen í dag þar sem rannsóknarlögreglumennirnir …
Frá blaðamannafundi lögreglunnar í Bergen í dag þar sem rannsóknarlögreglumennirnir May-Britt Erstad og Tore Salvesen gerðu grein fyrir framvindu rannsóknarinnar. Skjáskot/VGTV

Umfangsmikil rannsókn, sem ekki færri en 25 lögreglumenn sinna, hefur staðið yfir í Bergen síðan á föstudagskvöldið en þá var hinn 28 ára gamli Said Bassam Chataya stunginn til bana í fjölmennum hópslagsmálum við bensínstöð Circle K á Danmarksplass þar í bænum.

Lögreglunni barst tilkynning um átökin um klukkan 21:30 á föstudaginn og fór þegar á vettvang. Lá Chataya þar í blóði sínu og var fluttur með hraði á Haukeland-sjúkrahúsið þar sem hann var úrskurðaður látinn um klukkustundu síðar.

Aðfaranótt gærdagsins og í gær handtók lögregla alls tíu manns, þar af mann á 22. aldursári sem grunaður er um að hafa stungið Chataya, og í dag bættust tveir í hóp handtekinna sem alls telur þá tólf manns. Norska dagblaðið VG heldur því fram að hinn grunaði sé frændi fórnarlambsins en allir hinna handteknu hafa komið við sögu lögreglu áður og þekkjast auk þess innbyrðis.

Þekktur undir heitinu „arab1“

Lögreglan í Bergen hélt blaðamannafund í dag og greindi þar frá tveimur síðustu handtökunum í málinu, en þeir sem þar eiga í hlut eiga nú þegar yfir höfði sér kæru fyrir rangan framburð við yfirheyrslur.

Chataya var þekktur í menningarkima rapptónlistar í Bergen undir listamannsnafni sínu „arab1“ þar sem talan einn er orðaleikur, á norsku „en“, og stendur þar fyrir greininn í því sem borið er fram araben eða arabinn, en Chataya var af palestínsku bergi brotinn. Hafði hann komið fram á tónleikum víða um Noreg en margir minnast hans einnig úr raunveruleikasjónvarpsþættinum Sjøsprøyten hjá norska ríkisútvarpinu NRK þar sem hann steig á skipsfjöl með þáttastjórnandanum Jarle Andhøy sem stýrði skútu sinni Berserk og skólaði þar til ýmsa landkrabba sem spreyttu sig við að ná tökum á siglingum.

„Þetta er sorglegur og tilgangslaus verknaður,“ sagði Andhøy þegar Dagbladet ræddi við hann í dag. „Hann var lífsglaður með glampa í augum, mikill tónlistaráhugamaður og dreymdi um frjálsa Palestínu,“ sagði þáttastjórnandinn og siglingagarpurinn og kvað fréttirnar af dauða Chataya hafa fengið mikið á sig.

„Kameldýrið“ segir óréttlætið grimmt

Fjöldi fólks úr tónlistarlífinu hefur minnst Chataya á samfélagsmiðlum um helgina og einn þeirra sem rætt hefur við fjölmiðla í dag er rapparinn Marcus Kabelo Møll Mosele, betur þekktur sem Kamelen, eða „Kameldýrið“, og segir hann mikið skarð fyrir skildi eftir brotthvarf vinar síns. „Hann var gæðablóð, ávallt ljúfur og glaður. Þetta er grimmt óréttlæti,“ hefur Bergensavisen eftir Kameldýrinu og hafa margir fjölmiðlar aðrir haft ummælin eftir en BA læsir síðu sinni öðrum en áskrifendum.

Jørgen Riple hefur verið skipaður verjandi hins grunaða og segist í samtali við norska ríkisútvarpið NRK hafa rætt við hann í gærkvöldi án þess að afstöðu grunaða til sektar hans eða sakleysis hafi borið á góma. Segir Riple skjólstæðing sinn ekki hafa vitað að Chataya væri látinn fyrr en hann tjáði honum það. „Honum féllu þau tíðindi þungt og það setti mark sitt á allt samtal okkar. Það var því þýðingarlaust að reyna að fara eitthvað yfir hvað gerðist þarna við bensínstöðina,“ segir Riple.

Lögregla telur ekki útilokað að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir fleirum, en þeim sem grunaður er um ódæðið, í fyrramálið.

Aftenposten

Dagbladet

NRK

VG

TV2

Tónlistartímaritið Gaffa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert