Bandaríkin geta ekki brotið okkur

Ren Zhengfei, forstjóri Huawei, segir ástæðu þess að dóttir hans …
Ren Zhengfei, forstjóri Huawei, segir ástæðu þess að dóttir hans var handtekin vera pólitíska. AFP

Það er engin leið fyrir Bandaríkin að brjóta á bak aftur kínverska fjarskiptarisann Huawei. Þetta sagði forstjóri fyrirtækisins í samtali við BBC. Ren Zhengfei, forstjóri Huawei, sagði handtöku dóttur sinnar Meng Wanzhou, sem jafnframt er fjármálastjóri fyrirtækisins, í Kanada í lok síðasta árs þá eiga sér pólitískar rætur.

Bandarísk yfirvöld hafa ákært Huawei og Meng fyrir glæpi á borð við peningaþvætti, bankasvik og fyrir stuld á viðskiptaleyndarmálum. Forsvarsmenn Huawei neita því hins vegar að fyrirtækið hafi gerst sekt um eitthvað slíkt.

Ren hafnaði því í viðtalinu að látið yrði undan þrýstingi frá Bandaríkjunum, en þetta er fyrsta viðtal hans við fjölmiðla utan Kína frá því Meng var handtekin.

Geta ekki yfirgefið okkur

„Það er ekki möguleiki að Bandaríkin geti brotið okkur á bak aftur,“ sagði hann. „Heimurinn getur ekki yfirgefið okkur af því að við erum þróaðri. Jafnvel þó að þeir sannfæri fleiri ríki um að nota okkur ekki tímabundið, þá drögum við fyrirtækið bara lítillega saman,“ sagði Ren.

Hann viðurkenndi þó að það geti haft töluverð áhrif á Huawei fækki viðskiptavinum fyrirtækisins. „Sannfæri þeir fleiri ríki um að nota okkur ekki tímabundið, þá drögum við fyrirtækið bara saman og verðum smærri.“

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varaði í síðustu viku bandamenn Bandaríkjanna við að nota tækni frá Huawei og sagði það gera Bandaríkjunum erfiðara um vik að eiga í samstarfi við þau.

Kona notar snjallsíma fyrir utan verslun Huawei í Peking í …
Kona notar snjallsíma fyrir utan verslun Huawei í Peking í Kína. AFP

Standa bara fyrir hluta heimsins

Yfirvöld í Ástralíu, Bandaríkjunum og á Nýja-Sjálandi hafa þegar bannað eða komið í veg fyrir að búnaður frá Huawei verði notaður við uppsetningu 5G-farsímakerfis. Þá eru yfirvöld í Kanada nú að skoða hvort alvarleg öryggisógn stafi af vörum fyrirtækisins.

BBC segir Ren hins vegar hafa varað við því að „heimurinn geti ekki yfirgefið [Huawei] af því að við erum þróaðri“.

„Slokkni ljósin í vestrinu mun austrið enn lýsa. Dimmi í norðrinu er enn birta í suðri. Bandaríkin eru ekki fulltrúi heimsins alls. Þeir standa einungis fyrir hluta heimsins,“ sagði Ren.

Spurður um handtöku dóttur sinnar, sagði hann rætur hennar vera pólitískar.

Meng, sem er fjármálastjóri Huawei, var handtekin í Kanada í byrjun desember að beiðni bandarískra yfirvalda og er búist við að þau muni fara fram á að fá hana framselda. 23 ákærur hafa verið lagðar fram gegn Huawei og Meng í tveimur mismunandi ákæruskjölum frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu.

Beita viðskiptabanni í hvert skipti sem eitthvað kemur upp

Í öðru ákæruskjalinu er fullyrt að Huawei hafi falið viðskiptatengsl sín við Íran, ríki sem Bandaríkin hafa sett viðskiptabann á. Í hinu skjalinu er að finna ákærur um stuld á viðskiptaleyndarmálum.

„Ég mótmæli því sem Bandaríkin hafa gert,“ sagði Ren. „Pólitískt spil á borð við þetta er ekki ásættanlegt. Bandaríkin vilja setja viðskiptabönn á aðra. Hvenær sem eitthvað mál kemur upp þá nota þeir þessa aðferð.

Við mótmælum þessu, en nú þegar við erum komin á þessa vegferð skulum við láta dómstólana skera úr um þetta.“

Ekki til í að taka áhættuna

Huawei hefur verið sakað um að ganga beina kínverskra stjórnvalda. Hafa Bandaríkin og önnur ríki lýst yfir áhyggjum af að kínverskar leyniþjónustustofnanir kunni að nota tækni Huawei til að njósna um önnur ríki, en samkvæmt kínverskum lögum ber kínverskum fyrirtækjum að sýna leyniþjónustustofnunum landsins fullan samstarfsvilja.

Ren segist hins vegar ekki vera tilbúin að taka þá áhættu að stunda njósnir. „Kínversk stjórnvöld hafa sagt það skýrt og greinilega að  þau muni ekki koma fyrir neinum bakdyrum. Við munum ekki heldur koma fyrir neinum bakdyrum,“ sagði Ren.

„Fyrirtæki okkar mun aldrei taka þátt í njósnaaðgerðum. Verði eitthvað slíkt gert mun ég leggja fyrirtækið niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert