Björguðu risavöxnum „ketti“ úr tré

Fjallaljónið klifraði upp í tré og sat fast á grein …
Fjallaljónið klifraði upp í tré og sat fast á grein í um 15 metra hæð. Ljósmynd/Twitter

Að bjarga köttum niður úr trjám er fyrir löngu orðinn hluti af viðurkenndum verkahring slökkviliðsmanna um allan heim. Slökkviliðsmenn í borginni San Bernardino í Kaliforníu voru beðnir um að bjarga einum slíkum síðastliðinn laugardag, en útkallið var frekar óhefðbundið þar sem um heldur stórt kattardýr var að ræða.

Kisinn reyndist vera fjallaljón sem hafði klifrað upp í tré og komið sér fyrir á grein í um 15 metra hæð. Maður sem var að sinna garðvinnu á svæðinu tók eftir að fjallaljónið var í sjálfheldu og kallaði því eftir aðstoð slökkviliðsins.

„Það er nokkuð algengt að ung fjallaljón ráfi inn í byggðir til að reyna að marka sér svæði,“ segir Kevin Brennan, líffræðingur hjá Náttúru- og dýralífsstofu Kaliforníu.

Svæðið var girt af áður en slökkviliðsmennirnir lögðu stiga að trénu, deyfðu dýrið og hífðu það niður með beislum. Allt gekk eins og í sögu, þökk sé skjótum viðbrögðum slökkviliðsins, og fjallaljóninu var hleypt aftur út í óbyggðir í nágrenninu.

Frétt BBC

Fjallaljónið er líklega stærsti „köttur“ sem slökkviliðsmenn í San Bernardino …
Fjallaljónið er líklega stærsti „köttur“ sem slökkviliðsmenn í San Bernardino hafa bjargað á ferlinum. Ljósmynd/Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert