Fimm særðust í skotbardaga

AFP

Fimm særðust í vopnuðum átökum milli lögreglu og byssumanns í franska hluta bandarísku borgarinnar New Orleans í gærkvöldi. 

Lögregla skaut og drap manninn en allir þeir sem særðust voru að bíða eftir strætisvagni skammt frá þar sem til átaka kom á milli mannsins og lögreglu. Einn þeirra er í lífshættu. 

Að sögn lögreglustjóra New Orleans, Shaun Ferguson, ætluðu lögreglumennirnir að ræða við manninn í tengslum við nokkur rán í borginni þegar hann tók upp byssu og skaut að lögreglu á gatnamótum Canal- og Elk-strætis. Lögreglan skaut til baka og endaði byssubardaginn með því að fimm vegfarendur særðust. Lögreglan elti manninn niður Elk-stræti að Tulane Avenue þar sem byssumaðurinn særði lögreglumann. Að sögn Ferguson skaut lögreglumaðurinn og særði byssumanninn sem lést síðar af völdum sára sinna á sjúkrahúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert