Venesúela sendir Kólumbíu hjálpargögn

Jorge Rodriguez, ráðherra upplýsingamála Venesúela, sagði ríkisstjórnina hyggjast ætla að …
Jorge Rodriguez, ráðherra upplýsingamála Venesúela, sagði ríkisstjórnina hyggjast ætla að senda fátæku fólki í Kólumbíu neyðaraðstoð. AFP

Ríkisstjórn Venesúela hefur ákveðið að dreifa mat til fátækra íbúa Cucuta-bæjar í Kólumbíu næstu helgi. Þetta sagði Jorge Rodriguez, ráðherra upplýsingamála, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag. 

Reuters greinir frá og segir áform ríkisstjórnarinnar vera í beinni andstöðu við fyrirætlanir stjórnarandstæðinga um að flytja bandarísk hjálpargöng frá Kólumbíu til Venesúela.

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, hefur til þessa neitað að taka við hjálpargögnum frá Bandaríkjunum þrátt fyrir að milljónir Venesúelabúa séu vannærðir og líði hungur.

„Við ætlum að færa bræðrum okkar og systrum í Cucuta 20 þúsund (matar)kassa til þess að mæta þeirri neyð sem herjar á stelpur og stráka bæjarins,“ er haft eftir Rodriguez.

Tekið er fram að ráðherrann hafi ekki með beinum orðum sagt að það væri matur í umræddum kössum.

Juan Guaido, forseti þingsins í Venesúela, sagði yfirlýsingu stjórnvalda óheiðarlega. „Þetta breytir engu hvað varðar áætlanir okkar um að skapa nægan þrýsting á stjórnvöld til að tryggja að [bandarísku] hjálpargögnin komist til skila [til Venesúela].“

Á grundvelli stjórnarskrár var Guaido falið hlutverk forseta tímabundið, þar til hægt verður að halda nýjar forsetakosningar. Maduro hefur þó ekki látið af embætti og lítur á kjör sitt sem lögmætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert