Bandarísk ríki í mál við Trump

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Sextán ríki Bandaríkjanna hafa höfðað mál gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna ákvörðunar hans um að lýsa yfir neyðarástandi í þeim tilgangi að reisa vegg á landamærunum að Mexíkó. Segja ríkin um stjórnarskrárbrot að ræða.

Fram kemur í frétt AFP að málið hafi verið höfðað fyrir alríkisdómstól í Kaliforníu en í stefnu ríkjanna sextán segi að ákvörðun Trumps fari í bága við vilja bandaríska þingsins og ákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna sem segi þingið hafa síðasta orðið um ráðstöfun almannafjár og með hvaða hætti skuli staðið að lagasetningu.

Ríkin sem höfðað hafa málið gegn Trump eru Kalifornía, Colorado, Connecticut, Delaware, Hawaii, Illinois, Maine, Maryland, Michigan, Minnesota, Nevada, New Jersey, New Mexico, New York, Oregon og Virginía. 

Xavier Becerra, dómsmálaráðherra Kaliforníu.
Xavier Becerra, dómsmálaráðherra Kaliforníu. AFP

Ákvörðun Trumps þýðir að han getur ráðstafað fjármunum sem ætlaðir voru í ýmis önnur verkefni í vegginn. Dómsmálaráðherra Kaliforníu hafði áður sagt að ríkið hefði hagsmuna að gæta í málinu þar sem hætta væri á að það yrði af fjármagni meðal annars til hermála og almannavarna sem yrði þess í stað notað til þess að reisa vegginn.

Einnig segir í stefnunni að ráðuneyti heimavarnarmála hafi brotið gegn lögum um umhverfisvernd með því að hafa ekki látið meta umhverfisáhrif veggjarins í Kaliforníu og New Mexico.

Nokkrir öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins, flokks Trumps, hafa harðlega gagnrýnt ákvörðun forsetans og sagt að hún setti hættulegt fordæmi og fæli í sér að framkvæmdarvaldið væri að fara út fyrir mörk sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert