Trump hótar ESB tollum á evrópska bíla

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir evrópskan bílaiðnað hafa skaðað þann bandaríska.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir evrópskan bílaiðnað hafa skaðað þann bandaríska. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði í dag að setja tolla á innflutning á evrópskum bílum, takist honum ekki að ná viðskiptasamningi við ESB.

„Við eigum í samningaviðræðum. Ef okkur tekst ekki að ná saman, þá gerum við það,“ sagði Trump við fréttamenn er hann var spurður út í mögulega tolla.

Trump hefur áður hótað tollum á evrópskan bílaiðnað, en þessi nýja hótun forsetans fær á sig annað yfirbragð í ljósi þess að bandaríska viðskiptaráðuneytið kynnti nýlega skýrslu þar sem haft er eftir heimildamönnum að þjóðaröryggi Bandaríkjanna geti stafað ógn af innflutningi á evrópskum bílum.

AFP-fréttaveitan segir þessa skýrslu geta haft áhrif á tollahugleiðingar stjórnarinnar. Bandarísk stjórnvöld hafa þegar beitt þjóðaröryggisrökunum til að setja tolla á stál og álinnflutning.

Hafa ráðamenn ESB-ríkja heitið því að svara í sömu mynt með eigin tollum á bandarískar vörur. 

Sagði Trump blaðamönnum að hann væri hlynntur því að setja 25% toll á evrópska bíla, sérstaklega þýska, enda hafi þeir að hans mati skaðað bandarískan bílaiðnað.

Trump og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, komust að samkomulagi í júlí á síðasta ári, en í dag lýsti Trump yfir óánægju með hversu hægt viðræður gengju. Sagði hann ESB-ríkin hafa lengi reynst Bandaríkjunum erfið. „Yfir margra ára tímabil,“ sagði forsetinn.

Bandaríkin eiga einnig í erfiðum viðræðum um viðskiptasamninga við kínverska ráðamenn, en leitast er við að finna lausn á tollahækkunum ríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert