„Allur femínismi endar á að vera karlremba í pilsi“

Ráðstefna um barnaníð innan kirkjunnar stendur yfir. Páfinn segir lausnina …
Ráðstefna um barnaníð innan kirkjunnar stendur yfir. Páfinn segir lausnina ekki felast í femínisma. AFP

Á ráðstefnu í Páfagarði standa vel á annað hundrað valdamestu manna kaþólsku kirkjunnar í ströngu við að skilgreina nýja stefnu í kynferðisbrotamálum gegn börnum innan kirkjunnar. Frans páfi ræddi stöðu kvenna innan kirkjunnar í gær. Önnur lota umræðna er byrjuð.

„Allur femínismi endar á að vera karlremba í pilsi,“ sagði páfi er hann ávarpaði fundargesti í gær. Hann telur ekki að lausnin við kynferðisbrotavandanum sé að auka völd kvenna í kirkjunni, að því er hið spænska El País segir frá.

„Þetta er ekki spurning um að ljá konum aukið hlutverk í kirkjunni – jú, það er í sjálfu sér gott, en það leysir ekki vandann – þetta er spurning um að aðlaga konuna sem merki kirkjunnar í hugum okkar,“ er haft eftir páfa.

Við hlið hans sat eina konan á ráðstefnunni, Linda Ghisoni, sem er sérfræðingur í kirkjurétti. Hann lofaði aðild hennar að ráðstefnunni en hún talar fyrir lausnum á þá lund, að í hverju biskupsdæmi fyrir sig innan kirkjunnar verði stofnuð ráð er lúta að þessum málum, og að þau ráð verði skipuð veraldlegum sem kirkjulegum fulltrúum.

Páfi kvað hafa brugðist innblásinn við tillögum hennar: „Að hlýða á orð Ghisoni var fyrir mér að hlýða á kirkjuna ræða sig sjálfa. Það er, við tölum allir um kirkjuna í okkar erindum, en þarna fannst mér sem sjálf kirkjan tæki til máls,“ sagði hann. „Það er þetta sem við verðum að leggja áherslu á, að konan er ímynd kirkjunnar, hún er eiginkonan, hún er móðirin.“

Páfinn talaði þannig vel um konur í kirkjunni almennt en virðist hafa illan bifur á orðinu sjálfu, femínisma.

Lykilorð á ráðstefnunni er hið enska „accountability“,það er sú ósk manna að dregnir verði til ábyrgðar þeir sem hana bera í kynferðisbrotamálum. Í gær tóku svo til máls ýmsir enskumælandi biskupar, frá Bandaríkjum, Ástralíu og Írlandi, þar sem árangur í svona aðgerðum kvað mikill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert