Spenna á landamærunum magnast

Fréttastofa AFP hefur greint frá því að her Venesúela hafi …
Fréttastofa AFP hefur greint frá því að her Venesúela hafi beitt táragasi. AFP

Hið minnsta tveir eru látnir og 15 hafa særst í átökum við landamæri Venesúela og Brasilíu þar sem her Venesúela reynir að meina sjálfboðaliðum með hjálpargögn inngöngu í landið. Bandaríkin hafa fordæmt herinn fyrir að skjóta á fólk sem reynir að komast yfir landamærin.

„Svívirðilegum mannréttindabrotum Maduro og þeirra sem fylgja skipunum hans verður ekki gleymt,“ segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Spennan magnast einnig við landamæri Venesúela að Kólumbíu, en Juan Guaido, þingforseti Venesúela sem lýst hefur sjálfan sig forseta, er þar staddur og kveðst ætla að tryggja að hjálpargögn komist inn til landsins.

Fréttastofa AFP hefur greint frá því að her Venesúela hafi beitt táragasi til þess að sundra þeim sem reyna að komast yfir landamærin frá Kólumbíu.

Nicolas Maduro forseti hefur lokað landamærum landsins að hluta til vegna „ógnar við fullveldi og öryggi landsins“ og segir neyðaraðstoð Bandaríkjanna sýndarmennsku og tilraun til þess að ráðast inn í landið.

Umfjöllun Guardian.

Umfjöllun BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert