Illgjarn hrekkur en hefur ekki valdið skaða

Brúðan Momo er vægast sagt hrollvekjandi en sérfræðingar fullyrða að …
Brúðan Momo er vægast sagt hrollvekjandi en sérfræðingar fullyrða að hún hafi ekki valdið skaða og vilja helst eyða allri umræðu um brúðuna. Ljósmynd/Facebook

Fregnir af hrollvekjandi brúðunni Momo sem gerir börnum og foreldrum þeirra lífið leitt á samfélagsmiðlum með því að hvetja til skaðlegrar hegðunar hafa vakið mikla athygli síðustu daga. Sérfræðingar biðja foreldra hins vegar um að halda ró sinni þar sem Momo hafi enn sem komið er ekki valdið skaða.

Momo hefur dúkkað upp á samfélagsmiðlum af og til síðustu ár, en uppruna hennar má rekja til hryllingssýningar sem sett var upp í Japan fyrir nokkrum árum. Momo hef­ur nýlega birst á samskiptaforritinu What­sApp þar sem hún hvet­ur unga not­end­ur til að bæta sér á vina­list­ann. Ef Momo er samþykkt birt­ast börn­un­um of­beld­is­full­ar mynd­ir og skaðleg­ar áskor­an­ir, svo sem um að taka eigið líf. Engin dæmi eru hins vegar um að börn hafi hlotið skaða vegna áskorana Momo. Þá hefur YouTube sent frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt er að Momo hafi ekki náð að taka yfir myndefni á miðlinum.

Vilja helst eyða allri umræðu um Momo

Bresku barnaverndarsamtökin NSPCC og hjálparsamtökin Samaritans, sem eru til staðar allan sólarhringinn fyrir þá sem glíma við vanlíðan og hugsanir um sjálfsskaðandi hegðun, segja að mesta hættan sem stafi af Momo þessa stundina sé að hún setur fólk sem glímir við andlega vanlíðan í viðkvæma stöðu.

„Það sem skiptir mestu máli í þessu samhengi er samt sem áður að foreldrar fari yfir öryggisráðstafanir sem ber að gera vegna myndefnis á samfélagsmiðlum,“ segir talsmaður Samaritans-samtakanna.

Færslu þar sem varað er við Momo og mögulegum afleiðingum hennar hefur verið deilt ótal sinnum en Kat Tremlett, starfsmaður hjá netöryggismiðstöð Bretlands, segir að þó svo að hugsunin á bak við það sé góð búi það til nýtt vandamál, það er aukna forvitni meðal ungmenna að kanna hvað sé þarna á ferð. „Vísast væri að hætta alfarið að tala um þetta svo þetta verði ekki vandamál,“ segir Tremlett.

Umfjöllun The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert