Þótti sjúklingur kvartsamur

Sjúkrastofa. Starfsfólk hjúkrunarheimilis í Vågsøy fann leið til að losna …
Sjúkrastofa. Starfsfólk hjúkrunarheimilis í Vågsøy fann leið til að losna við tíðar bjölluhringingar vistmanns en aðstandendur hans stóðu það að verki. Ljósmynd/Forocoches.com

Kulatoppen-hjúkrunarheimilið á Vågsøy í Sognsæ og Firðafylki á vesturströnd Noregs sætir nú mikilli orrahríð umboðsmanns sjúklinga og fylkismannsins þar í fylkinu eftir að upp komst að starfsfólk heimilisins, sem leiddist tíðar hringingar eins vistmanna eftir aðstoð, gerði sér lítið fyrir og klippti ítrekað á snúru sem tengd var við vaktbjöllu vistmannsins en hnýtti hana svo saman á ný svo ekki kæmist upp um athæfið.

„Ég á bágt með að trúa þessu. Við erum að tala hér um meðvitað athæfi þar sem viðvörunarbjalla er aftengd og reynt að halda því leyndu,“ segir Lisa Førde Refsnes, umboðsmaður sjúklinga í fylkinu, í samtali við norska ríkisúvarpið NRK en staðarblaðið Firdaposten, sem rekur læsta síðu, greindi fyrst frá málinu.

Refsnes fjallar ítarlega um málið í ársskýrslu embættis síns fyrir 2018, sem ríkisútvarpið hefur undir höndum, og kemur þar fram að brot starfsfólksins gegn vistmanninum hafi ítrekað verið framin yfir langt tímabil en hinir ábyrgu skýrt mál sitt með því að þeim hafi þótt vistmaðurinn kvarta úr hófi fram og nota bjölluna frjálslega.

Teknir í landhelgi

Aðstandendum vistmannsins þótti ekki allt með felldu og vakti það meðal annars grun þeirra að snúran, sem tengd var bjöllu sjúklingsins, hafði ítrekað verið hnýtt saman og ekki alltaf sömu hnútum. Eitt kvöldið komu aðstandendur í óvænta heimsókn og gripu þá starfsmann glóðvolgan við að aftengja bjöllu vistmannsins.

Jeanette Jensen, heilbrigðis- og umönnunarfulltrúi fylkisins, segir í samtali við TV2 að háttsemin sé með öllu ólíðandi: „Svona störfum við ekki. Aðstandendur og notendur [heilbrigðisþjónustunnar] eiga að geta treyst því að þeir séu öruggir og fái hjálp,“ segir Jensen og bætir því við að farið verði rækilega í saumana á málinu og dreginn lærdómur af því.

Ekki fylgir sögunni hvort eða hvaða viðurlögum hinir seku í málinu muni sæta en fylkismaðurinn hefur sent frá sér eigin skýrslu og er þar þungyrtur: „Starfsfólkið leysti vandræði sín með tíðar hjálparbeiðnir sjúklingsins með því að taka frá honum möguleikann á að kalla eftir hjálp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert