Tvenn Nóbelsverðlaun afhent í ár

Síðasti Nóbelsverðlaunahafi er breski rithöfundurinn Kazuo Ishiguro sem fékk verðlaunin …
Síðasti Nóbelsverðlaunahafi er breski rithöfundurinn Kazuo Ishiguro sem fékk verðlaunin 2017.

Stjórn Nóbelsstofnunarinnar (NS) ákvað á fundi sínum fyrr í dag að Sænska akademían (SA) mætti í haust afhenda Nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir bæði 2019 og 2018, en sem kunnugt er voru engin verðlaun afhent í fyrra vegna þeirrar krísu sem ríkt hefur í SA frá árslokum 2017.

„Að mati stjórnar NS skapa þær ráðstafanir sem SA hefur gripið til góða möguleika á því að SA endurheimti traust sitt sem verðlaunaveitandi stofnun,“ segir í fréttatilkynningu frá NS. Þar er vísað til þess að starfsreglur SA hafi verið skýrðar, þeim breytt á þá leið að fulltrúar hafi nú möguleika á að hætta og búið sé að velja inn nýja fulltrúa.

„Í SA starfa ekki lengur meðlimir sem eru til rannsóknar vegna trúnaðarbrota eða sakamála,“ segir í fréttatilkynningunni sem fjallað er um á vef Sænska ríkisútvarpsins.

Í samtali við Dagens Nyheter fagnar Anders Olsson, starfandi ritari SA, ákvörðun stjórnar NS. Aðspurður neitar hann að tjá sig um það hvaða skilyrði NS hafi sett fyrir því að SA endurheimti réttinn til að útdeila Nóbelsverðlaunum. Á síðasta ári margítrekaði Lars Heikensten, stjórnandi NS, að SA yrði að leysa ýmis vandamál áður en SA gæti endurheimt traust NS.

Síðan krísan hófst innan SA hafa samtals sjö fulltrúar kosið að hætta, þeirra á meðal Sara Danius, fyrrverandi ritari SA, og Katarina Frostenson, eiginkona Jean-Claude Arnault sem sakaður var um að hafa áratugum saman beitt konur kynferðislegu ofbeldi, átt óeðlileg fjárhagsleg tengsl við SA og ítrekað lekið nöfnum um komandi vinningshafa.

Að kröfu NS tók sérstök Nóbelsnefnd til starfa 1. febrúar sem sjá mun um valið á verðlaunahöfum, en hún er til jafns skipuð fólki innan og utan Sænsku akademíunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert