Vaxandi ójöfnuður áhyggjuefni

Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP

Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna varar við vaxandi ójöfnuði í heiminum, hvort sem lýtur að tekjum, auði, aðgengi að tækifærum eða réttlæti.

„Á síðustu mánuðum höfum við séð fólk um allan heim flykkjast út á götur og mótmæla,“ sagði mannréttindastjórinn Michelle Bachelet í ávarpi á þingi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Vísaði Bachelet m.a. til mótmæla í Súdan sem og á Haítí og í Frakklandi. Hún varaði sérstaklega við vaxandi útlendingahatri og hatursorðræðu.

Bachelet sagði viðbrögð við kröfum borgaranna áhyggjuefni. Þeim sé mætt með ofbeldi, óhóflegri beitingu valds, varðhaldi og pyntingum.

„Síðustu mánuði hafa Súdanar mótmælt bágum hag sínum og gagnrýnt stefnu stjórnvalda. Þeim hefur verið mætt af öryggishersveitum sem stundum beita skotvopnum,“ tók hún sem dæmi.

Bachelet tók Venesúela sérstaklega fyrir í ávarpi sínu og sagði ástandið þar dæmi um hvernig mannréttindi eru brotin á fólki sem býr við vaxandi ójöfnuð og erfiðar efnahagslegar aðstæður.

Mannréttindastjórinn gagnrýndi einnig Ísraelsstjórn sérstaklega vegna herkvíarinnar sem þeir halda Palestínumönnum á Gaza-svæðinu í. Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna bentu á það í síðustu viku að ísraelskar hersveitir séu grunaðar um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni í aðgerðum sínum gegn fjöldamótmælum Palestínumanna við landamæragirðingar á Gaza í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert