Látið götuna okkar í friði

Rue Crémieux.
Rue Crémieux. Skjáskot af Instagram

Íbúar við Rue Crémieux í tólfta hverfi Parísar eru búnir að fá nóg af ágangi ferðamanna sem smella af myndum í gríð og erg og birta á samfélagsmiðlum. Hafa þeir óskað eftir því við borgaryfirvöld að settar verði takmarkanir á aðgengi að götnunni á ákveðnum tímum sólarhringsins. 

Ferðabloggarinn Kris Morton segir að þetta sýni svart á hvítu hvernig leitin að hinni fullkomnu mynd getur orðið að vandamáli. 

Að sögn íbúa hafa þeir óskað eftir því að sett verði upp hlið sem hægt er að loka á ákveðnum tímum. Til að mynda síðdegis, um helgar og við sólarupprás og sólarlag en birtan á þeim tíma virkar eins og mý á mykjuskán fólks sem leitar að hinni fullkomnu Instagram-mynd. 

Í viðtali við France Info lýsir einn íbúanna aðstæðunum sem þeir búa við: Við sitjum við matarborðið og fyrir utan er fólk að taka myndir, rappara sem taka tvo tíma í upptökur á myndskeiðum beint fyrir neðan gluggana hjá okkur eða gæsa- og steggjapartýgestir æpandi og öskrandi fyrir utan. Þetta tekur virkilega á. 

Morton segist hafa séð fólk á Instagram hegðað sér á óásættanlegan hátt þegar hún hafi heimsótt fallega staði á Íslandi, Feneyjum og Machu Picchu í Perú.

Hún hafi meðal annars ekki komist leiðar sinnar þar sem fólk virðist þurfa að taka myndir af öllum mögulegum og ómögulegum sjónarhornum. Hún hafi gefist upp og hiki ekki við að ganga fyrir myndavélarnar. Ekki sé við smáforritið að sakast heldur fólkið sem notar það með þessum hætti. 

#ruecremieux

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert