Trump: Finnur til með Manafort

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist finna til með fyrrverandi kosningastjóra sínum.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist finna til með fyrrverandi kosningastjóra sínum. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist finna virkilega til með Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra sínum. Manafort var í gær dæmdur í 47 mánaða fangelsi fyrir skatta- og efnahagsbrot.

Þá fullyrti Trump ranglega við fréttamenn að dómarinn í málinu hefði sagt ekkert leynimakk í gangi með rússneskum ráðamönnum. 

„Ég finn virkilega til með Paul Manafort,“ hefur BBC eftir Trump. „Ég helda að þetta sé búið að vera virkilega erfitt fyrir hann.“

Manafort var í fyrra fundinn sekur um fela 55 milljónir dollara fyrir bandarískum skattayfirvöldum, vegna tekna sem hann fékk fyrir ráðgjafastörf í Úkraínu. Dómur mun falla í öðru máli gegn Manafort í næstu viku og er það vegna ólöglegrar  hagsmunabaráttu.

Við dómsuppkvaðninguna í gær sagði dómarinn TS Ellis að Manafort væri ekki fyrir rétti nú vegna leynimakks með rússneskum stjórnvöld og leiddu þau orð hans til rangrar fullyrðingar forsetans að um ekkert leynimakk væri að ræða. „Dómarinn sagði að það væri ekkert leynimakk með Rússlandi,“ sagði Turmp. „Það er ekkert leynimakk. Þetta er blekking um leynimakk. Þetta eru nornaveiðablekking um leynimakk.“

Er Trump var spurður hvort hann hefði hugleitt að náða Manafort, kvaðst hann ekki einu sinni ræða slíkt. „Sá eini sem ræðir það ert þú,“ sagaði hann við blaðamann.

Nokkurrar gagnrýni hefur gætt í bandarískum fjölmiðlum í dag með að dómurinn yfir Manafort var mun mildari en dómaframkvæmd heimilar. Rudy Giuliani, lögfræðingur Trump sagði engu að síður að harkalega hefði verið komið fram við Manafort. „Þeir ættu að skammast sín fyrir þessa hræðilegu meðferð á Manafort,“ sagði í skriflegum svörum Guilianis við fyrirspurn PBS sjónvarpsstöðvarinnar. Þá sagði hann rannsakendur Robert Muellers, sérstaks saksóknara bandarísku alríkislögreglunnar FBI á rannsókninni á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum, hafa þrýst stöðugt á Manafort „af því að hann vildi ekki ljúga fyrir þá“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert